„Það er óásættanlegt að presturinn hafi brotið siðferðilega á konunum meðan hann var þjónandi prestur í Þjóðkirkjunni og í samskiptum við þær. Það er einnig sárt að þolendum hefur þótt skorta á að hlustað hafi verið á þær eða ekki fylgst með líðan þeirra af hálfu yfirstjórnar kirkjunnar á þeirri leið sem þær þurftu að ganga.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í yfirlýsingu sem Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, og vígslubiskuparnir í Skálholti og á Hólum, hafa sent till fimm þolenda sóknarprestsins Ólafs Jóhannssonar. Þar er, fyrir hönd þjóðkirkjunnar, harmað að brot hans hafi átt sér stað og að konurnar hafi þurft að líða fyrir siðferðisbrot af hans hálfu um árabil.
Braut siðferðislega á tveimur konum
Konurnar fimm höfðu lýst kynferðislegu áreiti, siðferðisbrotum og óásættanlegri hegðun séra Ólafs í samskiptum hans við sig og kærðu hann til úrskurðarnefndar Þjóðkirkjunnar.
Eftir að úrskurðarnefndin lauk máli sínu áfrýjaði séra Ólafur til áfrýjunarnefndar úrskurðarmála. Niðurstaðan var sú að hann braut siðferðilega á tveimur af konunum og var brotunum lýst í niðurstöðu nefndarinnar. Málinu er nú lokið og séra Ólafur var leystur frá embætti sem sóknarprestur í þjónustu Þjóðkirkjunnar með því að embætti hans var lagt niður í vor. Í yfirlýsingunni segir að allar konurnar fimm hafi átt það sameiginlegt að hafa átt í samskiptum við hann í starfi sínu og þjónustu á kirkjulegum vettvangi þar sem þessi siðferðisbrot voru framin.
Frakkur og ágengur
Í niðurstöðu áfrýjunarnefndar er hægt að lesa lýsingu á þeim brotum sem Ólafur framdi frá haustinu 2002 og fram á árið 2017 gagnvart einni konu, sem starfaði sem prestur á þeim tíma sem brotin áttu sér stað. Þar segir m.a. að Ólafur hafi sýnt af sér áreitni sem „hefði falist í því að áfrýjandi narti í eyrnasnepla, kossum á kinn sem færist yfir á eyrnasnepla sem sleiktir séu snöggt, kæfandi faðmlögum par sem henni hafi verið lyft frá gólfi og haldið í fangi. Einnig hafi áfrýjandi tekið skó af fótum varnaraðila og ýmist veitt eða boðið fótanudd án þess að um það hafi verið beðið. Þessi tilvik hafi verið mörg og háttsemin í raun óslitin.“
Ólafur sagði að faðmlög hans hafi verið vinahót og eðlileg og að hann kannaðist við að lyfta fólki upp í faðmlögum en „að það hafi verið stælar og skýrst af því að hann sé í eðli sínu bæði frakkur og ágengur.“ Hann fullyrti að hann hefði aldrei kysst konuna með tungu sinni né nartað í eyra hennar í þau 15 ár sem þau unnu saman en staðfesti að hann hefði mörgum árum áður boðið henni fótanudd sem hún hefði afþakkað.
Hægt er að lesa yfirlýsinguna í heild hér og niðurstöðu Áfrýjunarnefndar hér.