Með stærri #Metoo ráðstefnum heims
Nú í haust verða tvö ár liðin frá því að #Metoo-bylgjan hófst haustið 2017 þegar konur um allan heim greindu frá kynferðislegu ofbeldi og kynbundinni og kynferðislegri áreitni. Í tilefni þess hefst alþjóðleg ráðstefna um #Metoo í dag en ráðstefnan er liður í formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og er skipulögð í samvinnu við RIKK – rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands.
Yfir 800 manns hafa skráð sig til þátttöku á ráðstefnunni og er hún því með stærri ráðstefnum um #metoo sem haldin hefur verið. Um áttatíu fyrirlesarar taka þátt í ráðstefnunni úr röðum fræðafólks, aktívista, stjórnmálamanna og sérfræðinga. Roxane Gay, Liz Kelly, Angela Davis, Marai Larasi og Cynthia Enloe eru meðal þeirra heimsfrægu fyrirlesara sem taka til máls á ráðstefnunni.
Sögur kvenna af erlendum uppruna höfðu mikil áhrif
Í tilefni dagsins skrifar forsætisráðherra um áhrif og umfang #Metoo-byltingarinnar hér á landi í aðsendri grein á CNN í dag. Hún segir að fyrir marga hafi það verið vendipunktur í baráttunni þegar konur af erlendum uppruna stigu fram og sögðu sögur sínar undir merkjum #Metoo-byltingarinnar.
„Þær lýstu margþættri mismunun sem flest okkur hefðum vonað að ætti sér ekki stað á Ísland. Þær afhjúpuðu þá staðreynd að á sama tíma og Ísland hefur vakið heimsathygli fyrir þann mikla árangri sem náðst hefur hér á landi í baráttunni fyrir kynjajafnrétti þá höfum við ekki tekist á við samtvinnun kynja, kynþátta og stétta ójöfnuð.“
Katrín bendir til að mynda á að á Íslandi hafi fatlaðar konur ekki sagt sínar #me-too sögur á skipulagðan hátt. Né þær konur sem sinna láglaunastörfum eða þær konur sem eru fórnarlömb mansals. „Baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna getur ekki verið háð fyrir einn hóp, hún verður að fela í sér alla þjóðfélagshópa.“
Miklu flóknara þegar þolandinn og gerandinn höfðu nafn og andlit
Katrín segir að þegar kannað var umfang og áhrif áreitis og ofbeldis í ríkisstofnunum þá hafi kom í ljós að stofnanir hafi verið tilbúnir að bregðast við atvikum alveg þangað til þau áttu sér stað. Viðbragðsáætlanir hafi verið til staðar en eins og oft gerist, sérstaklega í litlum samfélögum, þá varð þetta allt miklu flóknara þegar þolandinn og gerandinn höfðu nafn og andlit.
Í greininni fjallar Katrín einnig um hvernig ríkisstjórnin sem hún leiðir hafi meðal annars ráðist í endurskoðun á löggjöf og forvarnarstarfi gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Hún segir þó að meira þurfi til. Það sem #metoo þurfi séu róttækar, menningarlegar breytingar. Engin ein leið eða stefna sé töfralausnin.
Eitt stærsta og þrálátasta böl okkar tíma
Katrín fjallar einnig um hvernig víða um heim sé til umræðu að skerða sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama. Umræða sem ætti að hafa lokið fyrir áratugum síðan. Hún segir að þar sem kerfislega sé grafið undan almennum mannréttindum þá séu konur og minnihlutahópar yfirleitt fyrstu skotmörkin. Hún segir því að mikilvægt sé að festa #Me-too hreyfingu í baráttunni fyrir verndun og eflingu mannréttinda.
„Félagslegar og samfélagslegar breytingar eiga sér aldrei stað án baráttu. #metoo krefst þess að við höldum áfram að spyrja erfiðra og ágengra spurninga vegna þess að kynjamisrétti, sem tengist öðru misrétti, er eitt stærsta og þrálátasta böl okkar tíma. Aðeins með því að halda samtalinu gangandi og þrýsta á breytingar til batnaðar getum við færst nær samfélagi jafnréttis,“ segir Katrín að lokum.