Kolefnissporareiknivél verkfræðistofunnar EFLU, sem reiknar og ber saman kolefnisspor mismunandi máltíða og rétta, stendur nú mötuneytum og matsölustöðum til boða gegn greiðslu. Kolefnisspor máltíðanna er sett í samhengi við það hversu langt þyrfti að aka fólksbíl til að losa sama magn gróðurhúsalofttegunda og er reiknivélin hugsuð til að auðvelda fólki að taka upplýsta ákvörðun um eigin neyslu og auka umhverfisvitund þess. Reiknivélin kallast Matarspor og er þjónustuvefur hennar opnuð í dag.
Sýna kolefnisspor máltíða til að fólk geti tekið upplýstar ákvarðanir
Kolefnisspor er mælikvarða á beina og óbeina losun gróðurhúsalofttegunda vegna athafna mannsins en hnattræn hlýnun vegna losunar gróðurhúsalofttegunda er ein mesta ógn sem mannkynið stendur frammi fyrir. Íslenskur landbúnaður veldur 13 prósent losunar í kolefnisbókhaldi Íslands og er þá ótalin losun vegna framleiðslu matvæla erlendis og innflutnings þeirra.
Að mati verkfræðistofunnar EFLU er því mikilvægt að miðla upplýsingum um áhrif matvæla á loftslag svo hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir. Stofan þróaði því reiknivél til að reikna út kolefnisspor máltíða í aðdraganda umhverfisviku fyrirtækisins. Reiknivélin vakti athygli víða og mikil eftirspurn var hjá fyrirtækjum og stofnunum eftir slíku tóli, að því er fram kemur í fréttatilkynningu EFLU.
Reiknivélin var því þróuð áfram og í dag opnar EFLA þjónustuvefinn Matarspor. Matarspor virkar þannig að skráðar eru uppskriftir ólíkra máltíða og hugbúnaðurinn stillir þá upp samanburði á kolefnisspori máltíðanna. Kolefnissporið er síðan sett í samhengi við það hversu langt þyrfti að aka fólksbíl til að losa sama magn af gróðurhúsalofttegundum.
Matarspor byggir á stórri safngreiningu innlendra og erlendra rannsókna sem gerðar hafa verið með aðferðafræði vistferilsgreiningar. Flutningar matvæla til Íslands eru teknir með í reikninginn og eru sýndir sérstaklega þannig að notandi geti auðveldlega áttað sig á hversu stóran þátt flutningar eiga í kolefnissporinu.
Ársáskrift að reiknivélinni
Mötuneytum og matsölustöðum stendur nú til boða að kaupa ársáskrift af Matarspori. Verð áskriftarinnar fer eftir stærð mötuneyti. Ársáskrift fyrir mötuneyti sem þjónusta færri en 50 manns er 96.000 krónur, fyrir yfir hundrað manna mötuneyti er það 144.000 þúsund á ári og fyrir yfir 300 manna mötuneyti er það 384.000 ári.
Samkvæmt EFLU fylgir samanburður á kolefnissspori máltíða aukin umhverfisvitund starfsfólks og viðskiptavini. Jafnframt getur Matarspor verið verkfæri til að þróa loftslagsvænni máltíðir og mataræði sem og verið öflugt tól til að meta og draga úr losun fyrirtækis vegna matar.
Orkuveita Reykjavíkur hefur þegar tekið kolefnissporareikninn í notkun en markmið orkuveitunnar er að draga úr losun fyrirtæksins vegna matar um 90 prósent fram til ársins 2030.