Matsölustaðurinn Nonnabiti, sem hefur verið starfræktur í miðborg Reykjavíkur í 27 ár, hefur lokað stað sínum í Hafnarstæti 9.
Í stöðuuppfærslu á Facebook kemur fram að rekstraraðilarnir hafi selt fasteignina sem hýst hefur starfsemina frá því að hún flutti sig úr öðru húsnæði í Hafnastræði fyrir nokkrum árum og að veitingastaðnum hafi þegar verið lokað. „Af því tilefni viljum við þakka ykkur viðskiptin og komurnar síðastliðin 27 ár.“
Kjæru viðskiptavinir og velunnarar, nú hefur Nonnabiti miðbæ lokað og höfum við selt eignina,af því tilefni viljum við...
Posted by Nonnabiti on Thursday, September 19, 2019
Nonnabiti verður áfram starfrækja einn veitingastað í Bæjarlind í Kópavogi.
Staðurinn hefur notið mikilla vinsælda um árabil, sérstaklega hjá þeim sem stunda næturlíf Reykjavíkur hverju sinni, enda var hann iðulega opinn langt fram eftir nóttu. Eða hjá þeim sem voru að takast á við afleiðingar næturlífsins daginn eftir.
Vinsælasti báturinn á Nonnabita, samkvæmt heimasíðu hans, var Baconbátur og þeir sem hafa lagt leið sína á staðinn í gegnum tíðina þekkja það að heyra kall eigandans, eða annarra starfsmanna, um hvort viðskiptavinurinn vilji allt meðlæti á bátinn sinn eða sérsníða hann með einhverjum hætti. „Allt á baconbát,“ hefur heyrst í síðasta sinn í miðborg Reykjavíkur.