Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir í sérstakri umræðu um loftslagsmál á Alþingi að mikilvægt sé að umræðan sé til þess fallin að skila einhverjum árangri. Hann segir að ekki sé æskilegt og í rauninni á margan hátt skaðlegt að viðhafa fyrst og fremst hræðsluáróðri um umhverfismál og loftslagsmál.
„Að börn komi skelfingu lostin heim úr skólanum og telja að heimurinn sé að farast. Við verðum að nálgast þessi mál, þetta stóra viðfangsefni á forsendum staðreynda og með tilliti til vísinda og með tilliti til samhengis,“ segir Sigmundur Davíð.
Telur að það besta sem Ísland hafi gert þegar kemur að loftslagsmálum er að reisa álver
Í dag, fimmtudaginn 19. september, fer fram sérstök umræða um loftslagsmál og skuldbindingar Íslands á alþjóðavettvangi á Alþingi. Málshefjandi er Logi Einarsson og til andsvara er forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir. Logi kallaði meðal annars eftir svörum um hvort að rýnt hafi verið í loftslagsmál í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.
Sigmundur Davíð tók næstur til máls og sagði að mikilvægt væri að nálgast loftslagsmál á forsendum staðreynda og með tilliti til samhengis. Hann segir að til að mynda sé eitt það besta og jafnvel það albesta sem Ísland hafi gert gagnvart loftslagsmálum í heiminum sé að reisa álver hér á landi.
Að álverin skuli hafa verið byggð á Íslandi þar sem notast er við endurnýjanlega, umhverfisvæna orku í stað þess að álver hafi risið í Kína þar sem losun vegna álveranna hefði verið tíföld það sem samskonar álver losi á Íslandi. Enda séu orkukerfin þar keyrð áfram af gegndarlausum kolabruna.
Segir að byggja verði umræðuna á staðreyndum
Sigmundur Davíð fjallaði jafnframt um fyrirhugaðan urðunarskatt stjórnvalda í pontu og spurði af hverju sé ekki verið að leggja áherslu á aðra valkosti. Til að mynda að hér verði reistar hátæknisorpbrennslur og þær brennslur notaðar til að framleiða orku enda sé heimilisrusl umhverfisvænasta eldsneytið til orkuframleiðslu.
Að lokum segir Sigmundur að ekki sé hægt að bregðast við þessum málum með því að reyna lifa eins og í „sænskri hippakommúnu“. „Við verðum að leyfa vísindunum að leysa þetta fyrir okkur. Því það eru þau sem hafa skilað okkur mestum árangri þegar það kemur að minni mengun. Byggja á staðreyndum, samhengi og lausnum sem raunverulega virka,“ segir Sigmundur Davíð.