Losun vegna flutninga með flugi jókst um tæp 27 prósent frá árinu 2016 til ársins 2017. Þá er áætlað að losun frá þessum geira í fyrra sé 5 prósent hærri en árið áður eða 2781 kílótonn af hitunargildum( CO2 ígildi). Þetta kemur fram í losunarbókhaldi gróðurhúsalofttegunda frá hagkerfi Íslands sem Hagstofan heldur utan um.
Losunin aukist um 2000 kílótonn síðan 2010
Losun hitunargilda er ekki það er ekki sama og losun koltvísýrings heldur einnig losun annarra lofttegunda. Sú losun sem um er að ræða í losunarbókhaldi Hagstofunnar er sú losun gróðurhúsalofttegunda frá hverri hagkerfiseiningu sem íslenskt hagkerfi byggir á auk heimila. Losun þarf því ekki að eiga sér stað á landsvæði Íslands, heldur þarf ákvörðunartaka um notkun efna og þar með losun að vera í höndum innlendra aðila.
Flugsamgöngur eru áfram með mestu losunina frá hagkerfi Íslands árið 2018 en losun hitunargilda frá flugsamgöngum innan íslenska hagkerfisins hefur aukist gríðarlega á síðustu árum. Árið 2010 var losun frá flugsamgöngum 770,6 kílótonn af hitunargildum en losunin í fyrra er áætluð 2781 kílótonn. Losunin hefur því aukist um rúmlega 2000 kílótonn á átta árum.
Losun frá sjósamgöngum aukist um 70 prósent
Losun hitunargilda frá sjósamgöngum hefur einnig aukist nokkuð á síðustu árum en samkvæmt Hagstofunni kemur þar inn aukin notkun á jarðefnaeldsneyti og á kælimiðlum í flutningum. Í þessum lið eru flutningaskip og skip sem notuð eru til skemmtisiglinga, að því gefnu að þessi skip séu með innlendan rekstraraðila. Erlend skemmtiferðaskip, flutningaskip og ferjur eru hins vegar utan við losunarbókhald hagkerfis Íslands.
Frá árinu 2010 til 2017 jókst losun á CO2 ígildum frá sjósamgöngum um 253,8 kílótonn, eða um nær 70 prósent frá 2010 en þetta tímabil einkenndist af miklum vexti í ferðamannaiðnaði. Hagstofan áætlar að losun frá skipaflotanum fari fram úr losun frá landbúnaði og matvælaiðnaði fyrir árið 2018 en áætluð losun frá skipaflotanum er 672 kílótonn á síðasta ári en losun frá landbúbaði og matvælaiðnaði 650 kílótonn.
Fyrirhuguð losun frá kísiliðnaði er 1080 kílótonn
Á undanförnum árum hefur verið unnið að uppbyggingu kísiliðnaðarins á Íslandi en samkvæmt matsáætlunum fyrir samþykktum framkvæmdum verður losun frá þessum iðanaði allt að 1080 kílótonn af CO2 þegar framleiðslan nær fullum afköstum.
Þessi losun bætist þá, að óbreyttu, við þau 1.819 kílótonn ígilda sem nú þegar koma frá málmframleiðslu, eða allt að 60 prósent til viðbótar.