Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra átti fund með Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra í morgun. Hún segir að Haraldur muni sitja áfram í embætti eins og staðan er núna. Hún segir að fyrst fremst þurfi að tryggja að löggæsla virki í landinu þrátt fyrir vantraustsyfirlýsingar.
Lesa meira
Ríkisstjórnin kom saman til fundar í Stjórnarráðinu í morgun þar sem málefni ríkislögreglustjóra voru meðal annars rædd. Áslaug Arna ræddi stuttlega við fréttamenn eftir fundinn.
„Ég átti fund með ríkislögreglustjóra í morgun. Ég bind vonir við að það samtal muni halda áfram. Ég hef nú þegar sett af stað vinnu í ráðuneytinu sem fór af stað strax í síðustu viku. Það var sent bréf til lögreglustjóra, ríkislögreglustjóra, lögreglumanna og annarra hluteigandi og sé fram á að þeirri vinnu miði hratt áfram og muni ljúka hratt,“ sagði Áslaug Arna að fundi loknum.
Aðspurð sagði hún að Haraldur mundi sitja áfram í embætti ríkislögreglustjóra eins og staðan er núna. „Fyrst og fremst þarf að tryggja að löggæsla virki í landinu þrátt fyrir vantraustsyfirlýsingar,“ sagði Áslaug Arna. Að öðru leyti vildi hún ekki tjá sig um hvað kom fram á fundi þeirra Haraldar.