Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, hefur lagt fram þingsályktunartillögu um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019 til 2033 og aðgerðaáætlun til næstu fimm ára á Alþingi. Í áætluninni er meðal annars lagt til að árið 2026 verði engin sveitarfélög á landinu með færri en þúsund íbúa. Meiri en helmingur sveitarfélaga er í dag með færri en þúsund íbúa en aukinn verður fjárhagslegan stuðning til sameiningar sveitarfélaganna.
Meginstoð velferðar íbúa
Áætlunin dregur saman meginþætti í langtímastefnumörkun ríkisins í þeim málaflokkum sem snúa að verkefnum sveitarfélaga til næstu fjórtán ára. Þá skal sveitarstjórnarmálum hagað í samræmi við þessa áætlun verði hún samþykkt og auk þessi mun þessi áætlun verða hluti af heildstæðri samþættri stefnu í samgöngumálum, fjarskiptamálum og byggðamálum.
Samkvæmt áætluninni er markmiðið að sveitarfélög á Íslandi verði öflugar og sjálfbærar staðbundnar stjórnsýslueiningar sem verði ein meginstoð velferðar íbúanna. Þá á sjálfbærni að verða leiðarljós stefnumörkunar fyrir sveitarstjórnarstigið en hún nær til félagslegra, efnahagslegra og umhverfislegra þátta samfélagsins.
Þrjátíu sveitarfélög á landinu eftir sjö ár
Afdrifaríkasta og umdeildasta aðgerðin sem lögð er fram í áætluninni er sú að árið 2026 muni ekkert sveitarfélag hafi færri en þúsund íbúa. Samkvæmt áætluninni miðar sú aðgerð að því að auka sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu þeirra til að annast lögbundin verkefni. Sett er fram tillaga um að lágmarksíbúafjöldi verði 250 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2022 en 1.000 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2026.
Í greinargerð áætlunarinnar segir að þrátt fyrir þá staðreynd að sveitarfélögum hafi fækkað umtalsvert á síðustu 30 árum og þau stækkað að sama skapi þá séu mörg þeirra enn fámenn. Sveitarfélög eru nú 72 talsins en 40 eru með færri en eitt þúsund íbúa eða alls eða 56 prósent sveitarfélaga á landinu.
Aftur móti búa einungis innan við fimm prósent þjóðarinnar í þessum 40 sveitarfélögum en sjö fámennustu sveitarfélögin eru með íbúafjölda á bilinu 40 til 91 manns. Áhrifin af þessari tillögu yrðu því þau að frá og með árinu 2022 myndi sveitarfélögum fækka um allt að 14, en allt að 40 frá og með árinu 2026. Fjöldi sveitarfélaga gæti því farið niður í um 30 talsins.
Margar umsagnir um þingsályktunartillöguna í samráðsgátt stjórnvalda sneru að þessari aðgerð en samkvæmt greinargerðinni var meðal annars kallað eftir því í umsögnunum að lýðræðislegur réttur íbúa verði hafður að leiðarljósi í fækkuninni og að fjárstuðningur aukist til muna við sameininguna.
Hagræðingin gæti skilað 5 milljörðum
Í greinargerðinni er greint frá niðurstöðum úttektar á hagrænum áhrifum þess að fækka sveitarfélögum. Tveir sérfræðingar unnu að úttektinni og beittu þeir mismunandi aðferðum við að reikna út áhrifin. Önnur þeirra gaf til kynna að svigrúm til hagræðingar við það að miða lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga í 1.000 geti orðið 3,6 milljarðar króna á ári á sveitarstjórnarstiginu. Hin aðferðin skilaði 5 milljörðum. Í greinargerðinni segir að því sé um að ræða umtalsverð hagræn áhrif.
Með stærri og öflugri sveitarfélög skapist svigrúm til að lækka stjórnsýslukostnað á íbúa og auka skilvirkni. Hagræðing í rekstri búi til aukin tækifæri til að veita íbúum betri þjónustu eða þjónustu sem hefur áður ekki staðið til boða. Þá skapast tækifæri til að efla sveitarstjórnarstigið og færa fleiri stór verkefni frá ríki til sveitarfélaga og þar með færa þjónustuna nær íbúunum.
Stóraukinn fjárhagslegur stuðningur við sameiningu sveitarfélaga
Í áætluninni er að finna tíu aðgerðir til viðbótar. Ein af þeim er að stórauka stuðning við sameiningu sveitarfélaga en stuðningurinn getur verið í ýmsu formi, svo sem þátttöku í kostnaði við undirbúning og framkvæmd sameiningar, framlögum til að mæta tekjutapi vegna lækkunar á jöfnunarframlögum og með framlögum til að stuðla að endurskipulagningu þjónustu og stjórnsýslu í kjölfar sameiningar, til að mynda framlög fyrir allt að 50 prósent stofnkostnaðar grunnskólamannvirkja og leikskóla.
Samkvæmt tillögunni gætu allt að 15 milljarðar farið í þennan stuðning á tímabilinu, þar að segja fram til ársins 2026 þegar 1000 íbúamarkið tekur gildi og í allt að sjö ár eftir það, sem væri endanlegur útgreiðslutími.
Aðrir aðgerðir sem lagðar eru fram í tillögunni eru meðal annars að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni, koma á fót lýðræðislegum vettvangi sveitarfélaganna til að tryggja íbúum sveitarfélaga og þeim sem njóta þjónustu þeirra möguleika á að taka þátt í og hafa áhrif á stjórn sveitarfélagsins og undirbúning stefnumótunar.
Þingsályktunartillöguna má lesa í heild sinni hér.