Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði fram í ríkisstjórn í morgun frumvarp til laga um sanngirnisbætur í kjölfar sýknudóms Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Var samþykkt að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi. Þetta kemur fram í frétt forsætisráðuneytisins í dag.
Samkvæmt ráðuneytinu kveður frumvarpið á um heimild ráðherra til að greiða sanngirnisbætur til þeirra sem sýknaðir voru með dómi Hæstaréttar þann 27. september árið 2018.
„Bætur verði einnig greiddar til aðstandenda þeirra sýknuðu sem fallnir eru frá. Í greinargerð frumvarpsins er rakin forsaga málsins og hvar sáttaviðræður hafa verið á vegi staddar til þessa dags,“ segir í frétt ráðuneytisins.
Allir sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu svokallaða voru sýknaðir af öllum ákæruliðum en dómur í málinu var kveðinn upp eins og áður segir þann 27. september í fyrra.
Fyrirfram var búist við sýknudómi, enda krafðist ákæruvaldið sýknu í sínum málflutningi. Erfitt var að sjá hvernig rétturinn hefði getað sakfellt í málinu þar sem enginn gerði kröfu um sakfellingu. Mönnum greindi helst á í því hversu langt Hæstiréttur myndi ganga í að lýsa yfir sakleysi ákærðu í dómsniðurstöðu sinni.
Endurupptökunefnd féllst í febrúar árið 2017 á að dómur Hæstaréttar í málinu sem felldur var árið 1980 skyldi tekinn upp hvað varðaði fimm sakborninga af sex. Endurupptökubeiðni Erlu Bolladóttur var hins vegar hafnað.