Níu af hverjum tíu Íslendingum finnst mikilvægt að kveðið sé á um náttúruauðlindir í stjórnarskrá Íslands. Þá telja 84 prósent landsmanna að mikilvægt sé að ákvæði séu um umhverfismál í stjórnarskrá. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum ítarlegrar könnunar félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um viðhorf almennings til stjórnarskrárinnar.
Forsætisráðherra hefur nú þegar lagt fram drög að stjórnarskrárákvæðum um auðlindir náttúru Íslands sem og umhverfisvernd. Skiptar skoðanir eru þó um ákvæðin ef marka má umsagnir um drögin í samráðsgátt stjórnvalda.
Ákvæði um náttúruauðlindir til skoðunar
Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar sem birt var þann 30. nóvember 2017 segir að ríkisstjórnin vilji halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar og nýta meðal annars til þess aðferðir almenningssamráðs. Í kjölfarið stofnaði forsætisráðherra nefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar með öllum formönnum flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi.
Í minnisblaði forsætisráðherra um fyrirhugaða endurskoðun stjórnarskárinnar kemur fram að nefndin skuli hafa til hliðsjónar þá miklu vinnu sem lögð hafi verið í endurskoðun á undanförnum árum, samanber þjóðfund, stjórnlaganefnd og stjórnlagaráð auk starfa stjórnarskrárnefnda.
Með það fyrir augum gæti nefndin unnið að breytingartillögum sem lagðar yrðu fyrir Alþingi hverju sinni í breiðri sátt að undangengnu víðtæku samráði.
Vinnan við endurskoðunina er áfangaskipt og á tímabilinu 2018 til 2021 taka formenn flokkana meðal annars fyrir þjóðareign á náttúruauðlindum, umhverfis- og náttúruvernd og þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði hluta kjósenda eða minnihluta þings.
Í maí síðastliðnum lagði forsætisráðherra síðan fram tvö frumvarpsdrög er varða breytingar á stjórnarskránni til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Annars vegar er um að ræða frumvarp um umhverfisvernd og hins vegar frumvarp um auðlindir í náttúru Íslands. Yfir þrjátíu umsögnum var skilað inn um drögin.
Hægri-sinnaðir ánægðari með núgildandi stjórnarskrá
Fyrir helgi kynnti Katrín Jakobsdóttir samráð stjórnvalda við almenning um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þar á meðal var skoðanakönnun sem framkvæmd var af Háskóla Íslands frá júlí til september á þessu ári að beiðni forsætisráðuneytisins
Markmið könnunarinnar var að draga fram sameiginleg grunngildi íslensku þjóðarinnar, kanna viðhorf hennar til tillagna sem komið hafa fram á undanförnum árum að breytingum á stjórnarskrá lýðveldisins og kortleggja sýn almennings á viðfangsefni stjórnarskrárinnar eins og þau eru útlistuð í minnisblaði forsætisráðherra um fyrirhugaða endurskoðun stjórnarskrár. Vert er að taka fram að ekki var spurt um tillögur stjórnlagaráðs í könnuninni.
Í niðurstöðum könnunarinnar kemur fram að 37 prósent svarenda segjast vera ánægð með núgildandi stjórnarskrá Íslands, 36 prósent svara hvorki né og 27 prósent segjast vera frekar eða mjög óánægð með stjórnarskránna.
Töluverður munur er þó á afstöðu til stjórnarskrárinnar eftir því hvar fólk staðsetur sig á vinstri og hægri skalanum. Af þeim sem staðsetja sig til vinstra segjast 45 prósent vera óánægð með núgildandi stjórnarskrá en alls 21 prósent ánægð með stjórnarskránna. Til samanburður segjast 64 prósent þeirra sem staðsetja sig meira til hægri vera ánægð með núgildandi stjórnarskrá en aðeins 9 prósent segjast vera óánægð með stjórnarskránna.
Í niðurstöðum könnunarinnar kemur jafnframt fram að meirihluti landsmanna hefur litla eða enga þekkingu á stjórnarskránni eða alls 58 prósent. Þá segjast 42 prósent hafa mikla eða nokkra þekkingu á stjórnarskránni.
Mikil þörf á ákvæði um náttúruauðlindir
Í könnuninni var jafnframt spurt um hversu mikil þörf væri á ákvæðum um ákveðin atriði sem ekki eru í núgildandi stjórnarskrá. Alls telja um 90 prósent svarenda að mjög mikil eða frekar mikil þörf sé á að ákvæði um náttúruauðlindir í stjórnarskrá. Þá segjast 84 prósent að mikilvægt sé að ákvæði séu um umhverfismál í stjórnarskrá.
Þá telja rúmlega 70 prósent að þörf sé á ákvæði um lýðræðislegt frumkvæði almennings og ákvæði um íslenska tungu.
Jafnframt kemur fram í niðurstöðunum að 70 prósent svarenda að mikil þörf sé á því að ákvæði um dómstóla verði endurskoðuð í stjórnarskrá sem og mannréttindaákvæði. Jafnframt telja meirihluti svarenda, um 65 prósent, að ákvæði um kjördæmaskipan og atkvæðavægi ættu að vera endurskoðuð sem og hlutverk ríkisstjórnar og ráðherra.
Meirihluti hlynntur öðru fyrirkomulagi við breytingar á stjórnarskrá
Enn fremur kemur fram í niðurstöðum könnunarinnar að meirihluti svarenda, 65 prósent, séu þeirra skoðunar að taka ætti upp annað fyrirkomulag við breytingar á stjórnarskrá, til dæmis að halda ætti frekar þjóðaratkvæðagreiðslur eða krefjast aukins meirihluta á þingi.
Aðspurð um skoðun sína á fyrirkomulagi um breytingar á stjórnarskrá svöruðu 73 prósent að breytingar á stjórnarskrá skuli ávallt bera undir þjóðaratkvæði. Þá segjast 16 prósent að skoðun þeirra væri að breytingar á stjórnarskrá mætti samþykkja á þjóðaratkvæðagreiðslu ef mikill meirihluti þingmanna sé þeim samþykkur. Þá segjast 11 prósent vera hlynnt núverandi fyrirkomulagi.