Mikil peningaþvættisógn stafar af því að eftirlit með starfsemi lögmanna er of lítil. Þetta er meðal þeirra veikleika sem tilgreindir eru á peningaþvættisvörnum hérlendis sem tengjast afléttingu hafta og frjálsara flæði fjármuna milli Íslands og annarra landa í aðgerðaráætlun gegn peningaþvætti sem birt var fyrr í mánuðinum. Þar segir orðrétt: „Áhætta tengd lögmönnum var metin há í áhættumati. Eftirlit með lögmönnum, sér í lagi þeim sem bjóða upp á þá þjónustu sem helst er hætta á að vera misnotuð er þ.a.l. í forgangi 1.“
Í aðgerðaráætluninni er greint frá því að Ríkisskattstjóri hafi hafist handa við að búa til áhættumiðaða eftirlitsáætlun sem byggi á ítarlegri greiningu og áhættumati á starfsemi lögmanna sem gæti liðkað fyrir peningaþvætti strax í janúar 2019. Í maí hafi áhættumatið legið fyrir.
Þá er lagt að hið áhættimiðaða eftirlit með starfsemi lögmanna myndi hefjast strax um mitt ár 2019. Þar eigi að kanna meðal annars aðferðir og ferla, áhættumat, framkvæmd áreiðanleikakönnunar og þjálfun starfsmanna.“
Skortur á áhættuvitund
Í áætluninni segir að skortur á áhættuvitund sé á meðal lögmannastéttarinnar. „Fjöldi lögmanna virðist ekki vera meðvitaður um með hvaða hætti þjónusta þeirra getur verið misnotuð.“
Þessi hættumerki og aðferðir við misnotkun tengjast meðal annars stofnun félaga eða fjárvörslusjóða á aflandssvæðum, stofnun lögaðila, raunverulegu eignarhaldi, áhættusömum viðskiptamönnum, misnotkun á vörslureikningum og áhættu tengdri því að koma fram fyrir hönd lögaðila sem er í eigu viðskiptamanns.
Þá kemur fram að upp á vanti við athugun lögmanna á lagalegri stöðu umbjóðenda sinna eða þegar þeir koma fram fyrir hönd þeirra í dómsmáli eða í tengslum við dómsmál, þar með talið þegar þeir veita ráðgjöf um hvort höfða eigi dómsmál eða komast hjá dómsmáli.
Í maí og júní 2019 var brugðist við þessu að hluta með því að peningaþvættiseftirlit Ríkisskattstjóra gaf út fræðsluefni um hættumerki og aðferðir við misnotkun fyrir lögmenn sem var birt á heimasíðu stofnunarinnar og selt til lögmannafélagsins, sem dreifði því til félagsmanna. Í aðgerðaráætluninni er hins vegar lagt til að frekara fræðsluefni verði undirbúið á haustmánuðum og dreift til lögmanna.
Sérstaklega er tekið fram að það sé veikleiki í peningaþvættisvörnum að skortur sé á tilkynningum frá lögmönnum til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu. Stýrihópur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hafi gefið út fræðsluefni um tilkynningar til skrifstofunnar til að bregðast við þessu og fræðslufundur hafi verið haldinn með lögmönnum í maí. Halda á frekari fræðslufundi í nóvember og desember 2019.
Lögmenn vildu hafa eftirlitið með sér hjá sér
Í sumar voru samþykkt lög um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna. Samkvæmt þeim færist eftirlit með því að lögmenn fari eftir ákvæðum laganna sem snúa annars vegar að frystingu fjármuna og efnahagslegs auðs og hins vegar að ráðstöfunum til að meta hvort viðskiptamenn séu á listum yfir peningaþvættisaðgerðir, til embættis Ríkisskattstjóra.
Lögmannafélag Íslands var ósatt með þessa breytingu og skilaði umsögn um frumvarp laganna áður en það var samþykkt. Í henni kom fram að félagið teldi eðlilegt að eftirlit með því hvort að lögmenn væru að fara eftir lögunum væri höndum þess, en ekki Ríkisskattstjóra. Lögmenn vildu því að lögmenn hefðu eftirlit með lögmönnum.
Utanríkisráðuneytið, sem bar ábyrgð á frumvarpinu, taldi ekki ástæðu til að bregðast við aðfinnslum Lögmannafélagsins.