Starfshópur á vegum þriggja ráðuneyta hefur verið falið að skila af sér mati á hvort aðferðafræði rammaáætlunar henti vindorkukostum fyrir lok árs sem og tillögum að breytingum á lögum ef hópurinn telur þess þarft. Ráðherrarnir þrír, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, umhverfis-og auðlindaráðherra og samgöngu-og sveitastjórnarráðherra, hafa það fyrir augum að leggja til lagabreytingar er varða vindorku strax á næst vorþingi.
Vindorka hagkvæmur og sveigjanlegur kostur
Vindorka hefur hingað til lítið verið notuð til raforkuframleiðslu á Íslandi en gætt hefur vaxandi áhuga á undanförnum árum á slíkum framkvæmdum.
Í skýrslu ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um nýjar aðferðir við orkuöflun sem birt var í nóvember í fyrra kemur fram að vindorka skeri sig úr öðrum kostum vegna hagkvæmni og sveigjanleika.
Vindorka henti til orkuframleiðslu þar sem þörf er fyrir lítið uppsett afl, til að mynda innan við 10 megavött, og einnig til að mæta þörf sem er yfir 200 megavött í stóru vindorkuveri. Í skýrslunni segir að þarna á milli séu ótal möguleikar, meðal annars uppbygging í hagkvæmum áföngum. Ekki er þó hægt að reka raforkukerfi sem byggist eingöngu á vindorku. Annar stöðugur orkugjafi, eins og vatnsorka, þurfi að tryggja grunnafl og mæta álagstoppum. Þegar vindorkan kemur inn minnki vatnsorkuframleiðslan jafnt og þétt.
Lagaramminn verið til skoðunar
Í ríkisstjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar segir að setja þurfi lög um vindorkuver ásamt því að vinna með sveitarfélögum leiðbeiningar um skipulagsákvarðanir og leyfisveitingar. Lagarammi vindorku hefur því verið til skoðunar hjá starfshópi skipuðum af ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, umhverfis-og auðlindaráðherra og samgöngu-og sveitastjórnarráðherra að undanförnu.
Samkvæmt svari frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu við fyrirspurn Kjarnans samþykkti ríkisstjórnin á fundi síðasta föstudag að fela starfshópnum að ljúka skoðun sinni og skila mati fyrir árslok með fyrir augum að hægt veðri að leggja til lagabreytingar snemma á næsta vorþingi.
Minna óafturkræft rask en hefðbundnir orkukostir
Starfshópnum hefur verið falið að skoða málsmeðferð, aðferðafræði, og leyfisveitingarferli núverandi rammaáætlunar en bent hefur verð á að hún henti ekki endilega gagnvart vindorku vegna sérstöðu þess orkugjafa
Vindorkan er svo að segja óþrjótandi og takmarkast helst af landrými. Þá er hún ekki jafnstaðbundin og aðrir hefðbundnari virkjunarkostir og fljótlegra er að byggja vindorkuver en hefðbundnar virkjanir. Jafnframt er tiltölulega auðvelt að taka verin niður og þau hafa almennt í för með sér minna óafturkræft rask en hefðbundnari orkukostir
Því hafa rök verið færð fyrir því að núverandi málsmeðferð rammaáætlunar henti ekki endilega gagnvart vindorku vegna sérstöðu hennar.
Ákveðin svæði sem henta betur en önnur
Starfshópnum var einnig falið að skoða hvort að rétt sé að bæta við lögin sérreglum um meðferð vindorkukosta og þá á grundvelli hugmynda um svæðaskiptingu landsins með tilliti til þess hvort þau henti til uppbyggingar vindorku eða ekki.
Samkvæmt Veðurstofu Íslands þarf að hafa gott mat á vindafari, sem sé afar svæðisbundin, til að kanna íslensku vindauðlindina. Svæðisbundnar breytingar ráðist mest af hæð í landi, en vindur sé alla jafna meiri á hálendi en láglendi og mestur við fjallstinda.
Ef starfshópurinn kemst að þeirri niðurstöðu að bæta eigi við sérreglum við lögin þá skal hópurinn enn fremur að vinna drög að stefnumörkun ríkisins varðandi þá umhverfislegu og samfélagslegu þætti sem ættu að vera ráðandi við slíka svæðaskiptingu, auk mótaðra hugmynda um hvaða stofnun eða aðili væri best til þess fallinn að framkvæma hana.
Í svari ráðuneytisins kemur fram að horft hefur verið til Noregs í þessum málum en þar í landi hefur verið lagt í umtalsverða vinnu við gerð sérstakra vindorkukorta fyrir landið, sem sýna hvaða svæði henta til nýtingar og hvar ætti að forðast hana.
Að lokum á starfshópsins á að leggja til nauðsynlegar breytingar á lögum um rammaáætlun ef hópurinn telur þess þörf.