Við mat á sjóðnum GAMMA: Anglia, sem fjárfestir í fasteignaþróunarverkefnum í Bretlandi, kom í ljós að „verkstjórn eins samstarfsaðila sjóðsins var verulega ábótavant og kostnaður var vanmetinn. Hefur sjóðurinn fært fjárfestingar sem gerðar voru í samstarfi við umræddan aðila niður, auk kostnaðar við undirbúning byggingar fjölbýlishúss sem hafnað var af skipulagsyfirvöldum.“
Nýir aðilar hafa verið ráðnir til að hafa umsjón með verkefnum GAMMA: Anglia í Bretlandi og forgangsverkefni hjá þeim verður að hámarka endurheimtur hlutdeildarskírteinishafa í sjóðnum, en gengi hans var fært niður úr 105 í 55 í fyrradag.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í tilkynningu sem nýr framkvæmdastjóri GAMMA, Máni Atlason, hefur sent frá sér vegna endurmats á stöðu tveggja sjóða í stýring hjá félaginu.
Hinn sjóðurinn sem var færður niður, GAMMA: Novus, var sagður eiga 4,4 milljarða króna í eigið fé um síðustu áramót og um 3,8 milljarða króna fyrir þremur mánuðum síðan. Eftir endurmat á eignum hans er eigið fé sjóðsins metið á 42 milljónir króna.
Í tilkynningunni segir að á síðari hluta ársins 2019 hafi stjórn GAMMA ráðið inn nýtt teymi sérfræðinga, í kjölfar þess að Kvika eignaðist allt hlutafé félagsins. Í kjölfar vinnu sérfræðinganna hafi gengi GAMMA: Novus og GAMMA: Anglia verið fært niður í samræmi við stöðu að mati núverandi stjórnenda GAMMA. Samhliða niðurfærslu var skipaður nýr sjóðstjóri í báðum sjóðum.
Í tilkynningunni er farið yfir að við mat á stöðu GAMMA: Novus hafi komið í ljós að eigið fé Upphafs fasteignafélags, sem er í eigu sjóðsins, hafi verið verulega ofmetið. „Fyrir liggur að kostnaður við framkvæmdir verkefna á vegum félagsins er vanmetinn. Jafnframt var raunframvinda verkefna félagsins ofmetin. Sú staða sem upp er komin kallar á endurskipulagningu á fjárhag félagsins og nýja fjármögnun til að tryggja framgang verkefna og hámarka virði eigna.“
Auk hlutdeildarskírteinishafa, sem hafa sett milljarða króna í sjóðinn, þá lánaði hópur fjárfesta GAMMA: Novus 2,7 milljarða króna í júní síðastliðnum í skuldabréfaútboði. Bréfin voru til tveggja ára, áttu upphaflega að bera 11 prósent vexti en enduðu í 15 prósentum. Þær upplýsingar sem þátttakendur í skuldabréfaútboðinu fengu á þeim tíma um stöðu sjóðsins voru allt aðrar en sú staða sem nú blasir við, eftir endurmat á eignum.