Embætti landlæknis í samvinnu við Rannsóknastofu í næringarfræði við Háskóla Íslands eru um þessar mundir að hefja landskönnun á mataræði og neysluvenjum landsmanna. Slík könnun hefur ekki verið framkvæmd í tæpan áratug en samkvæmt landlækni má ætla að mataræði Íslendinga hafi breyst frá þeim tíma. Niðurstöður könnunarinnar munu meðal annars nýtast við neytendavernd, lýðheilsustarf og í stefnumótun stjórnvalda.
Tæpur áratugur frá síðustu könnun
Heilsa hverrar þjóðar ræðst að miklu leyti af lifnaðarháttum og er mataræði þar einn af áhrifamestu þáttunum, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Landlæknis. Í tilkynningunni segir jafnframt að mjög mikilvægt sé að kanna mataræði reglubundið en sambærileg könnun hefur ekki verið framkvæmd síðan árin 2010 til 2011.
Tilgangur könnunarinnar er fylgjast með mataræði þjóðarinnar, þróun þess og breytingum en ástæða er til að ætla að breytingar hafi átt sér stað á mataræði Íslendinga frá þeim tíma
Formaður Neytendasamtakanna segir slíka könnun löngu tímabæra
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, er einn þeirra sem kallað hefur eftir því að matarvenjur Íslendinga verði kannaðar. Hann sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í mars síðastliðnum að slík könnun væri löngu tímabær þar sem síðasta könnun var gerð fyrir rúmum áratug.
Breki benti jafnframt á að í nágrannalöndum Íslands fjölgi hratt í hópi ungs fólks sem leggi áherslu á ýmis konar grænmetisfæði. Í nýlegri könnun í Svíþjóð hafi komið fram að nú neyti um fjórðungur fólks þar í landi undir þrítugu grænmetisfæðis.
„Þetta er þróun sem ég hef heyrt að sé að byrja hér, við erum nokkrum árum á eftir Skandinavíu. Þetta er þróun sem fer undir radarinn hjá okkur af því að við gerum engar rannsóknir til að kanna þessi mál,“ sagði Breki.
Hlutfall grænkera ekki verið kannað hér á landi
Hlutfall þeirra sem eru grænmetisætur eða vegan hefur hins vegar aldrei verið kannað af neinu viti hér á landi samkvæmt Benjamín Sigurgeirssyni, formanni Samtaka grænkera á Íslandi.
Benjamín sagði í samtali við Kjarnann í mars síðastliðnum að hlutfallið gæti verið í kringum tvö til þrjú prósent eða tæplega tíu þúsund manns. Hann telji aftur á móti að hlutfall þeirra sem ákveðið hafa að minnka dýraafurðaneyslu sé að einhverju leiti mun meiri. Hann bendir á mjög margir sleppi til dæmis mjólkurvörum úr kúamjólk þó þeir séu ekki vegan.
Vísbendingar eru um að Íslendingar hafi breytt neysluvenjum sínum á síðustu misserum gagngert til að draga úr kolefnisfótspori sínu. Í árlegri umhverfiskönnun Gallups kemur fram að rúmlega helmingur landsmanna segist hafa breytt neysluvenjum sínum í daglegum innkaupum gagngert til þess að minnka umhverfisáhrif á síðustu tólf mánuðum.
Niðurstöðurnar nýtast í stefnumótun stjórnvalda
Um tvö þúsund manns á aldrinum 18 til 80 ára geta átt von á bréfi með beiðni um þátttöku í landskönnun Landlæknis á næstu misserum. Skipuleggjendur landskönnunarinnar hvetja alla, sem haft verður samband við, til þátttöku og að stuðla þannig að því að lýðheilsustarf á sviði næringar verði byggt á traustum og góðum upplýsingum um mataræði og neysluvenjur þjóðarinnar.
Niðurstöður könnunarinnar munu nýtast við lýðheilsustarf, áhættumat vegna matvælaöryggis, við neytendavernd og í stefnumótun stjórnvalda.