Í síðustu tveimur könnunum MMR mælist fylgi Viðreisnar samtals 9,8 prósent. Það er meira en flokkurinn fékk 2017 en minna en hann fékk árið 2016.
Fáir flokkar tala með jafn afgerandi hætti til ákveðinna hópa í samfélaginu en ná nánast ekkert til annarra, og Viðreisn. Þannig eru karlar til að mynda mun líklegri til að kjósa Viðreisn en konur. Stuðningur við flokkinn er mestur hjá yngstu kjósendunum en minnkar svo jafnt og þétt upp aldursstigann og hjá elsta kjósendahópnum mæalst einungis Píratar með minna fylgi á meðal þeirra flokka sem eiga fulltrúa á þingi í dag.
Stuðningur við Viðreisn er nánast einvörðungu bundinn við höfuðborgarsvæðið. Um 87 prósent aðspurðra sem segjast ætla að kjósa flokkinn búa þar, en vert er að taka fram að svæðið er líka það langfjölmennasta á landinu. Mjög erfitt er að sjá að Viðreisn myndi ná inn kjördæmakjörnum þingmanni í öðrum kjördæmum en þeim þremur sem þar er að finna ef kosið yrði í dag. Viðreisn mælist með minnst fylgi utan höfuðborgarsvæðisins af öllum flokkum sem mælast inni eins og stendur. Það væri helst á Suðurlandi sem möguleiki er að ná inn manni með smá viðbót.
Kjósendahópur Viðreisnar heldur áfram að vera nokkuð einsleitur þegar aðrar breytur eru skoðaðar. Flokkurinn talar mjög vel til háskólamenntaðra en nánast ekkert til þeirra sem eru einungis með grunnskólapróf. Sömu sögu er að segja þegar tekjuhópar eru skoðaðir. Áhugi tekjulægsta hópsins á Viðreisn er sá næst minnsti á meðal þeirra flokka sem eiga fulltrúa á þingi, á eftir Framsókn. Stuðningurinn eykst síðan samhliða tekjum og mælist mestur (15,9 prósent) á meðal þeirra sem eru með yfir 1,2 milljónir króna í heimilistekjur á mánuði. Einungis Sjálfstæðisflokkurinn mælist með meira fylgi hjá þeim tekjuhópi.
Kjósendur Viðreisnar eru allra kjósenda líklegastir til að vera notendur af tónlistarveitunni Spotify (69 prósent) og að hámhorfa á Netflix (84 prósent með áskrift). Þeir voru líka ánægðastir allra með undirskrift síðustu kjarasamninga.
Viðreisnarfólk hefur hins vegar mestar áhyggjur allra af stöðu heilbrigðisþjónustu í landinu, það hefur einna mestan áhuga allra á húsnæðismálum og þungar áhyggjur af loftlagsbreytingum.
Líklega kemur það lítið á óvart að kjósendur Viðreisnar eru mest fylgjandi innflutningi á fersku kjöti til landsins (68 prósent þeirra hafa þá skoðun) enda flokkur sem leggur áherslu á frelsi í alþjóðaviðskiptum og aukið samstarf við Evrópu.
Greiningin er hluti af stærri umfjöllun þar sem kjósendur allra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi eru teknir fyrir. Hún byggir á ítarlegum gögnum frá MMR úr könnunum sem fyrirtækið hefur framkvæmt á fylgi flokka í ágúst og september 2019 auk fjölda annarra sértækra kannana um ýmis álitamál sem MMR hefur framkvæmt á þessu ári. Hægt er að lesa heildarumfjöllunina hér.