Flokkur fólksins hefur meira og minna mælst töluvert undir kjörfylgi allt þetta kjörtímabil og samkvæmt síðustu tveimur könnunum MMR á hann ansi langt í land með að ná inn manni ef kosið væri í dag. Fylgið mælist einungis 4,1 prósent.
Það er marktækt mest hjá kjósendum yfir 68 ára aldri, enda hefur flokkurinn talað mjög máli eldri borgara í sinni pólitík. Stuðningurinn virðist algjörlega bundinn við Höfuðborgarsvæðið og Norðurland en er vart mælanlegur í öðrum landshlutum. Flokkurinn myndi lifa stöðugu og góðu lífi ef einungis þeir sem mest hafa lokið grunnskólanámi kysu til þings, en þar nýtur hann 9,8 prósent stuðnings. Einungis eitt prósent þeirra sem lokið hafa háskólanámi styðja Flokk fólksins.
Kjósendur flokksins voru mjög á móti þriðja orkupakkanum þegar hann var til umræðu á þingi og eru auk þess allra kjósenda líklegastir til að telja að efnahagsstaðan á Íslandi sé slæm. Þeir hafa líka mestar áhyggjur af fátækt og félagslegum ójöfnuði og eru uppteknastir allra af stöðu húsnæðismála.
Greiningin er hluti af stærri umfjöllun þar sem kjósendur allra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi eru teknir fyrir. Hún byggir á ítarlegum gögnum frá MMR úr könnunum sem fyrirtækið hefur framkvæmt á fylgi flokka í ágúst og september 2019 auk fjölda annarra sértækra kannana um ýmis álitamál sem MMR hefur framkvæmt á þessu ári. Hægt er að lesa heildarumfjöllunina hér.