Dómsmálaráðherra hefur nú leiðrétt umtalsverðar skekkjur í svari sínu um nauðungarsölur hér á landi á síðustu 18 árum. Samkvæmt uppfærðum tölum voru 5.816 fasteignir einstaklinga seldar nauðungarsölu á árunum 2008 til 2017 sem eru mun fleiri fasteignir en kom fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi í júní síðastliðnum en mun færri en í svari hans við fyrirspurn í ágúst 2018.
Ónákvæm skráning í kerfi leiddi til skekkju
Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar, þingmanns Miðflokksins, um nauðungarsölur, fjárnám og gjaldþrot hjá einstaklingum árið 2018, sem birt var í júní síðastliðnum kom fram að í heildina voru 2.704 nauðungarsölur hjá einstaklingum á tímabilinu 2008 til 2017.
Þær tölur voru á skjön við þær tölur sem birtar voru í svari dómsmálaráðherra við sambærilegri fyrirspurn þann 15. ágúst 2018 en í því svari kom fram að á sama tímabili voru 8846 nauðungarsölur hjá einstaklingum.
Kjarninn sendi í kjölfarið fyrirspurn á dómsmálaráðuneytið um misræmið í fjölda nauðungarsala í svörum dómsmálaráðherra og fékk þau svör að ráðuneytið hefði misræmið til skoðunar.
Ráðuneytið hefur nú sent Alþingi endurskoðaður tölur og skýringar á því í hverju misræmið sé fólgið. Í bréfinu til þingsins segir að við nánari athugun á gögnum sem aflað var frá Þjóðskrá Íslands kom í ljós að skekkja er í svörunum sem birt voru á vef Alþingis.
Fyrirspurn Ólafs frá því í júní sneri eingöngu að upplýsingum um einstaklinga en ekki lögaðila en í svari ráðherra var ekki nægilega greint á milli einstaklinga og lögaðila þar sem skráning í starfakerfin var ónákvæm og örðugt reyndist að ná fram upplýsingum úr eldri starfakerfum, að því er fram kemur í svari ráðuneytisins.
Jafnframt kemur fram í svari ráðuneytisins að svar ráðherra við fyrirspurn Ólafs í ágúst í fyrra hafi jafnframt byggt á sömu skekkju og greint var frá hér að ofan.
Rúmlega 10 þúsund nauðungarsölur á tíu árum
Ráðuneytið hefur nú uppfært svar sitt við fyrirspurn Ólafs en þar kemur fram í raun hafi 5.816 fasteignir einstaklinga verið seldar nauðungarsölu á árunum 2008 til 2017, sem er um 3.000 fleiri fasteignir en kom fram í svari ráðherra í júní en um 3.000 færri en kom fram í svari ráðherra í ágúst í fyrra.
Í uppfærðu tölunum má sjá að fjöldi nauðungarsala náði hámarki árið 2013 en þá voru seldar 1.085 fasteignir en þeim hefur síðan farið fækkandi á síðustu árum og í fyrra voru alls 75 fasteignir einstaklinga seldar nauðungarsölu.
Í svari ráðuneytisins er greint á milli nauðungarsölu á fasteignum í eigu einstaklinga, lögaðila og blandað þar sem gerðarþolar eru fleiri en einn og að minnsta kosti einn þeirra er einstaklingur. Í svarinu kemur jafnframt fram að um er að ræða fasteignir sem seldar voru lokasölu og þar sem afsal fasteignar hefur verið gefið út. Tölurnar endurspegla því ekki fjölda nauðungarsölubeiðna eða fjölda auglýsinga um sölu á nauðungaruppboði sem sýslumenn höfðu til meðferðar.
Samanlagt voru 10.169 fasteignir í eigu einstaklinga, lögaðila og blandað seldar nauðungarsölu á árunum 2008 til 2017 en alls 13.345 fasteignir frá árinu 2000 til 2018.