Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, ásamt átta þingmönnum úr þingflokkum Pírata, Samfylkingar, Vinstri grænna, Viðreisnar og Flokks fólksins hafa lagt fram frumvarp þess efnis að fellt verði úr lögum bann við vörslu, kaupum og móttöku ávana- og fíkniefna. Verði frumvarpið samþykkt felur það í sér stórt skref í átt að afglæpavæðingu neyslu vímuefna.
Frumvarp um neyslurými ekki til þess fallið að ná markmiði sínu
Á síðasta þingi lagði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, fram frumvarp um stofnun og rekstur neyslurýma. Að baki frumvarpsins var ályktun Alþingis um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum neyslu ávana- og fíkniefna til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum, þeirra, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild.
Við meðferð frumvarpsins í velferðarnefnd kom hins vegar fram sú gagnrýni að frumvarpið væri ekki til þess fallið að ná markmiði sínu þar sem lögreglu yrði áfram skylt að leggja hald á ólögleg fíkniefni og gera þau upptæk. Nefndin beindi því til heilbrigðisráðherra að vinna markvisst að því að afnema refsingar fyrir vörslu á neysluskömmtum fíkniefna.
Þingmennirnir níu sem leggja nú fram frumvarpið um afnám refsingar fyrir vörslu á neysluskömmtum telja það hins vegar rétt að löggjafinn hafi frumkvæði að setningu laga til að bregðast við því ástandi sem hamlaði framgangi frumvarpsins um neyslurými.
Áfram bannað að selja fíkniefni
Frumvarp þingmannanna felur í sér að stað þess að fortakslaust bann sé við vörslu efna þá er varsla efna einungis bönnuð þegar magn þeirra er umfram það sem getur talist til eigin nota. Þannig er tryggt að áfram verði hægt að refsa þegar augljóst er að efnin séu ekki ætluð til einkanota.
Áfram verði hins vegar hægt að sakfella fyrir það sem kann að teljast alvarlegra brot á lögum um ávana og fíkniefni, þar á meðal innflutningur, útflutningur, sala, skipti, afhending, framleiðsla og tilbúningur efna.
Mannúðleg nálgun gagnvart neytendum fíkniefna
Í greinargerð frumvarpsins segir að undanfarin ár hafi samfélagið sammælst um mikilvægi þess að aðstoða fólk með fíknivanda frekar en refsa því og að veita þeim sjálfsagða heilbrigðisþjónustu. Þingmennirnir segja að sjá megi skýr merki um þessa nálgun í nýlegri laga- og reglugerðarsetningu, til dæmis með því að smávægileg brot á lögum um ávana- og fíkniefni komi ekki fram á sakavottorðs og með framlagningu frumvarps heilbrigðisráðherra um neyslurými.
„Brotthvarf frá refsistefnu sem gengur út á að jaðarsetja neytandann víkur því nú um allan heim fyrir stefnu sem byggist á því að veita neytendum sem á þurfa viðeigandi þjónustu. Með samþykkt frumvarps þessa mundi Ísland skipa sér í fremstu röð hvað varðar heilbrigðisþjónustu og mannúðlega nálgun gagnvart þeim neytendum vímuefna,“ segir í greinargerðinni að lokum.