Ísland mælist nú í 26. sæti á lista ríkja eftir samkeppnishæfni og fellur niður um tvö sæti á milli ára. Helsti veikleiki Íslands er smæð heimamarkaðar miðað við önnur lönd. Erfitt sé hins vegar að taka á þeim veikleika nema með því að hvetja fyrirtæki og frumkvöðla til að sækja á alþjóðamarkaði. Þetta kemur fram í árlegu skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins, The Global Competitiveness Report.
Ísland er eftirbátur Norðurlandanna þegar kemur að samkeppnishæfni
Vísitala Alþjóðaefnahagsráðsins um samkeppnishæfni er virtur mælikvarði á efnahagslíf 141 þjóð víða um heim. Vísitalan er mjög víðtæk og endurspeglar þá þætti sem segja til um framleiðni þjóða og vaxtarmöguleika þeirra til framtíðar.
Í fyrra batnaði samkeppnisstaða Íslands miðað við fyrra ár og mældist í 24. sæti á listanum. Árið 2017 var Ísland í 28. sæti, árið á undan í 27. sæti og árið 2015 sat Ísland í 29. sæti. Singapúr tekur fram úr Bandaríkjunum á listanum í ár og trónar nú á toppi listans. Næst koma Bandaríkin og loks Hong Kong, Holland og Sviss.
Af Norðurlöndunum er Svíþjóð efst eða í áttunda sæti og flyst upp um eitt sæti milli ára. Danmörk er í tíunda sæti og Finnland í því ellefta en bæði löndin halda sætum sínum frá síðustu könnun. Noregur er í 17. sæti.
Nýsköpunardrifið hagkerfi
Ráðið hefur tekið upp ný viðmið sem taka mið af þeim breytingum sem meðal annars fjórða iðnbyltingin hefur í för með sér, hvað varðar samkeppnishæfni og þá sérstaklega á sviði stafrænnar þróunar, en einnig sköpun í samfélaginu, frumkvöðlamenningu og hversu opin og straumlínulagað eða virkt samfélagið er.
Líkt og í fyrra er í skýrslu ráðsins Ísland skilgreint sem nýsköpunardrifið hagkerfi og nýtur sem fyrr góðs af nokkrum sterkum samkeppnisþáttum eins og stöðu menntunar og heilbrigðismála, stöðugleika, aðlögunarhæfni og sveigjanleika vinnumarkaðar.
Í skýrslunni tekur mæling á samkeppnishæfni mið af tólf stoðum og undir hverri er fjöldi viðmiða. Við hverja stoð og viðmið kemur fram sæti Íslands ásamt breytingum frá fyrra ári. Einnig kemur fram hvaða þjóðir eru fremstar á hverju sviði.
Stærsti veikleiki Íslands, miðað við flest önnur lönd, er eins og verið hefur, stærð heimamarkaðar, samkvæmt skýrslunni. Ísland er í 133. sæti af 141 þegar kemur að stærð markaðar og fellur niður um sæti á milli ára. Samkvæmt Nýsköpunarmiðstöð Íslands er þó lítið hægt að gera í því nema Ísland taki áskoruninni um að hvetja fyrirtæki og frumkvöðla að taka mið af alþjóðamörkuðum í nýsköpunarverkefnum.