Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur á ný lagt fram frumvarp um stofnun Þjóðarsjóðs fyrir Alþingi. Verði frumvarpið að lögum mun sjóðurinn taka til starfa í upphafi næsta árs, en inn í hann eiga að renna allar arðgreiðslur orkufyrirtækja í eigu hins opinbera. Þjóðarsjóðurinn á svo að fjárfesta fyrir það fé erlendis. Um er að ræða, að minnsta kosti að uppistöðu, arðgreiðslur úr Landsvirkjun en forstjóri fyrirtækisins hefur sagt að það ætti að geta greitt um 110 milljarða króna til ríkisins á árunum 2020 til 2026.
Í fréttaskýringu sem Kjarninn birti um Þjóðarsjóðarhugmyndina í febrúar síðastliðnum kom fram að á 10 til 20 árum ættu heildareignir Þjóðarsjóðsins að geta farið upp í allt að tæplega 400 milljarða króna, miðað við 3,5 prósent ávöxtun á ári.
Sjóðnum er ætlað að gegna því meginhlutverki að verða eins konar áfallavörn fyrir þjóðina þegar ríkissjóður verður fyrir fjárhagslegri ágjöf í tengslum við meiri háttar ófyrirséð áföll á þjóðarhag, annaðhvort vegna afkomubrests eða vegna kostnaðar við viðbragðsráðstafanir sem stjórnvöld hafa talið óhjákvæmilegt að grípa til í kjölfar áfalls eða til að varna því. „Hér er átt við skakkaföll sem eru fátíð en sagan sýnir að geta riðið yfir á nokkurra áratuga fresti, m.a. stórfelldar náttúruhamfarir sem gætu stórlaskað byggð, samgönguinnviði, vatnsafls- og jarðhitavirkjanir og stóriðjuver, alvarleg mengunar- eða umhverfisslys, vistkerfisbreytingar, sjúkdómsfaraldra eða önnur áföll, og valdið þungbæru efnahagslegu tjóni umfram þann skaða sem tryggður er með öðrum hætti, svo sem með Náttúruhamfaratryggingu Íslands.“
Fimm manna stjórn skipuð
Samkvæmt frumvarpinu verður fimm manna yfirstjórn skipuð af fjármála- og efnahagsráðherra yfir sjóðnum. Þar stendur að stjórnarmenn skuli „búa yfir menntun, sérfræðiþekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stjórnarsetu tilhlýðilega og skal þar einkum horft til reynslu og þekkingar á fjármálamarkaði og hagfræði.
Þrír stjórnarmannanna yrðu tilnefndir af Alþingi, einn af forsætisráðherra en fjármála- og efnahagsráðherra, nú Bjarni Benediktsson, myndi skipa formann stjórnarinnar án tilnefningar. Sá yrði skipaður til fimm ára en aðrir stjórnarmenn til þriggja ára í senn. Hver stjórnarmaður mætti einungis vera skipaður tvívegis í röð.
Alþingi þarf að samþykkja
Stjórn Þjóðarsjóðsins á síðan að framfylgja og útfæra nánar fjárfestingarstefnu sjóðsins sem ráðherra setur í reglugerð að fenginni tillögu stjórnar. Sérstaklega er tilgreint í frumvarpinu að ekki megi fjárfesta í fjármálagerningum sem „gefnir eru út af fyrirtækjum eða stofnunum sem stunda eða eru viðriðin starfsemi sem stangast á við góða siði eins og nánar skal tilgreint í fjárfestingarstefnunni.“
Óheimilt verður að fjárfesta í verðbréfum eða öðrum fjármálagerningum útgefnum í íslenskum krónum eða útgefnum af aðilum með lögheimili á Íslandi eða í eigu erlends aðila sem íslenskir aðilar eiga meira en tvo hundraðshluta í. Þá má ekki stofna til innlána hjá íslenskum bönkum og bannað verður að veðsetja eigur sjóðsins, að frátöldum veðtryggingum sem settar eru í tengslum við viðskipti í kauphöllum eða til tryggingar lántöku eða afleiðusamningum.
Við slíkar aðstæður má taka allt að helming eigna sjóðsins og nýta til að takast á við það áfall, að því skilyrði uppfylltu að áfallið svari til að minnsta kosti fimm prósent af meðaltekjum undanfarinnar þriggja rekstrarára. Sérstök matsnefnd á að fara yfir hvort að það skilyrði sé uppfyllt og ef svo er þá leggur fjármála- og efnahagsráðherra fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um úthlutun úr Þjóðarsjóði, sem þarf að samþykkja hana.
Ekki allir sammála hugmyndinni
Hugmyndir um uppsetningu Þjóðarsjóðs hafa verið umdeildar, meira að segja innan ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, sem nú leggur frumvarpið fram sem stjórnarfrumvarp. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, lýsti því til að mynda yfir snemma á þessu ári að hægt væri að nýta arðgreiðslur frá Landsvirkjun til að fjármagna tug milljarða vegaframkvæmdir, fremur að horfa til veggjalda. Í útvarpsviðtali á Bylgjunni í febrúar sagði hann: „Við vitum að arðgreiðslur eru að koma frá Landsvirkjun, ekki síst á næstu árum. Við höfum verið að ræða það að setja það í Þjóðarsjóð. Er kannski skynsamlegra að nota það í einhver ár við uppbyggingu vegakerfisins? Er það meiri ávinningur fólginn í því og gera svo eitthvað í þessari gjaldtöku í 4-5 ár?“
Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja, skrifaði grein sem birtist í Kjarnanum í maí síðastliðnum þar sem hann gagnrýndi stofnun Þjóðarsjóðs. Þar stóð meðal annars: „Mótsagnakennt virðist að ætla ráðstafa um tæpum 15 -20 milljörðum á ári í Þjóðarsjóð sem fjárfestur yrði alfarið í erlendum verðbréfum (stefnt er að því að Þjóðarsjóður nái 250 – 300 milljarða króna stærð á 15 – 20 árum skv. minnisblaði Fjármála- og efnahagsráðuneytis) á meðan ekki er til fé í ríkissjóði til þess að standa undir þeim útgjöldum sem nefnd hafa verið að ofan. Spurning hver er tilgangur þess að safna sjóðum erlendis vegna óskilgreindrar þarfar (fjárhagsleg áföll) á meðan ofangreind sem öll eru til þess fallin að auka hagsæld og velferð þarf að fjármagna með sköttum gjöldum eða lántökum. Þá virðist einnig skynsamlegt að ríkissjóður greiði upp skuld sína við lífeyrissjóði opinberra starfsmanna áður en uppbygging væri hafin á Þjóðarsjóð.“