Um það bil 6.400 minni kröfuhafar Kaupþings banka höfðu ekki sótt þær greiðslur sem þeir áttu rétt á að fá um síðustu áramót, samkvæmt nauðasamningi sem gerður var í lok árs 2015. Þetta kemur fram í ársreikningi Kaupþings ehf., félags utan um eftirstandandi eignir hins fallna banka, fyrir árið 2018.
Þar segir að í lok janúar 2019 hafi félagið geymt 27,2 milljónir evra í reiðufé og 29,2 milljónir punda í breytanlegum skuldabréfum á vörslureikningi til að mæta greiðslum kröfuhafa sem höfðu ekki sótt peningana sína. Samanlagt virði þeirra fjármuna sem geymdir voru á vörslureikningi, umreiknað í íslenskar krónur á gengi dagsins í dag, er um 8,5 milljarðar króna.
Búið að greiða út háar upphæðir
Slitabú Kaupþings samdi við íslenska ríkið um greiðslu stöðugleikaframlaga sumarið 2015, gegn því að fá að klára gerð nauðasamnings og hefja útgreiðslu fjármuna til kröfuhafa sinna.
Sá nauðasamningur var kláraður í desember sama ár.
Eignir félagsins hafa aukist það sem af er þessu ári. Meðal annars fékk Kaupþing greitt 97,8 milljónir punda, um 15,7 milljarða króna á núvirði, þann 10. janúar 2019 eftir að samkomulag náðist við Robert Tchenguiz, stærsta lántakanda bankans fyrir hrun. Með því lauk áralöngum málaferlum Roberts og bróður hans Vincents við Kaupþing. Greiðslan kom úr fjárfestingafélaginu Oscatello, sem var í eigu Robert Tchenguiz.
Hafa greitt mikið til ríkisins
Stöðugleikaframlögin sem Kaupþing greiddi fólust meðal annars í því að félagið skilaði uppistöðu þeirra fjármuna sem fengust við sölu á hlut félagsins í Arion banka til íslenska ríkisins vegna afkomuskiptasamnings sem gerður var milli aðilanna. Samkvæmt honum átti íslenska ríkið að fá þriðjung af öllu söluandvirði Kaupþings á eignarhlutum félagsins í Arion banka milli 100 og 140 milljarða króna en helminginn á milli 140 og 160 milljarða króna. Þá fær ríkissjóður þrjá fjórðu í sinn hlut af söluandvirði umfram 160 milljarða króna.
Í sumar hafði ríkissjóður þegar fengið í heildina um 100 milljarða króna í tengslum við söluferli Kaupþings á eignarhlutum sínum í Arion banka. Auk þess hafði félagið greitt um 8,3 milljarða króna í vexti vegna 84 milljarða króna veðskuldabréfs sem Kaupþing gaf út til ríkisins í ársbyrjun 2016. Skuldabréfið, sem var með veði í hlutabréfum í Arion banka og var hluti af stöðugleikaframlagi Kaupþings, var greitt upp að fullu í fyrra.
Með milljarða í laun
Kjarninn greindi frá því í upphafi viku að stjórn og forstjóri Kaupþings hefðu samtals fengið 1.216 milljónir króna í laun í fyrra. Alls námu greiðslur til starfsmanna félagsins, sem voru 17 talsins, í heild rúmlega 3,5 milljörðum króna á árinu 2018 og hækkuðu um 900 milljónir króna þrátt fyrir að starfsfólki hefði fækkað. Frá árinu 2016 hafa greiðslur til starfsfólks Kaupþings aukist um 1,9 milljarð króna en starfsfólkinu sjálfu fækkað úr 30 í 17.
1.216 milljónir króna í laun í fyrra. Alls námu greiðslur til starfsmanna félagsins, sem voru 17 talsins, í heild rúmlega 3,5 milljörðum króna á árinu 2018 og hækkuðu um 900 milljónir króna þrátt fyrir að starfsfólki hefði fækkað. Frá árinu 2016 hafa greiðslur til starfsfólks Kaupþings aukist um 1,9 milljarð króna en starfsfólkinu sjálfu fækkað úr 30 í 17.
Greint var frá því fyrir þremur árum síðan að um 20 manna hópur lykilstarfsmanna Kaupþings gæti fengið allt að 1,5 milljarða króna til að skipta á milli sín ef hámörkum á virði óseldra eigna Kaupþings myndi nást. Næðust markmiðin átti að greiða út bónusgreiðslurnar eigi síðar en í apríl 2018.
Langstærsta óselda eign Kaupþings á þeim tíma var 87 prósent hlutur félagsins í Arion banka, sem nú hefur verið seld að öllu leyti eftir að bankinn var skráður á markað. Umræddar bónusgreiðslur áttu einungis að ná til starfsmanna Kaupþings, ekki stjórnarmanna og ráðgjafa sem unnið höfðu fyrir félagið. Greiðslur til þeirra áttu að koma til viðbótar því sem greiddist til starfsmanna.