Tvö lagafrumvörp um breytingar erfðafjárskatti hafa verið lögð fram á síðustu vikum. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, lagði fram annað þeirra til umsagnar í samráðsgátt fyrr í október og þingmenn Viðreisnar hafa einnig lagt fram frumvarp um breytingar á erfðafjárskatti á Alþingi.
Frumvarp Bjarna leggur til þrepaskiptingu þar sem neðra skattþrepið er 5 prósent og efri 10 prósent en skattþrepin taka mið af skattstofni dánarbúsins en ekki arfgreiðslu hvers erfingja um sig. Frumvarp Viðreisnar miðar hins vegar við þrjú þrep 10, 15 og 20 prósent og ræðst hlutfallið af fjárhæð þess arfs sem fellur til hvers erfingja um sig við uppgjör tiltekins dánarbús, ólíkt því sem lagt er til í frumvarpi Bjarna.
Fimm prósent af allt að 75 milljónum
Frumvarp fjármálaráðherra felur í sér að erfðafjárskatturinn verði þrepaskiptur með þeim hætti að annars vegar reiknast 5 prósent erfðafjárskattur af skattstofni að fjárhæð allt að 75 milljónum króna og hins vegar 10 prósent af því sem er umfram 75 milljónir. Lagt er til að skattþrepin taki mið af skattstofni dánarbúsins en ekki arfgreiðslu hvers erfingja um sig.
Árið 2010 var erfðaskatturinn hækkaður úr fimm prósentum í tíu prósent. Í greinargerð frumvarpsins segir að sú hækkun hafi verið hluti af umfangsmiklum aðgerðum til að afla ríkissjóði viðbótartekna í ljósi sérstakra og erfiðra aðstæðna í ríkisfjármálum og að hann hafi haldist óbreyttur þrátt fyrir að hagur ríkisjsóðs hafi vænkast. Því er lagt til í frumvarpinu að neðra skattþrepið verði lækkað í 5 prósent.
Í frumvarpinu kemur jafnframt fram að þrátt fyrir að greiða skuli 5 prósent erfðafjárskatt af skattstofni allt að 75 milljónum samkvæmt frumvarpinu þá er ekki gert ráð fyrir að greiddur sé erfðafjárskattur af fyrstu 1,5 milljónunum. Í frumvarpinu er einnig tekið fram að erfðafjárskattur af fyrirframgreiddum arfi sé sami og í hærra skattþrepinu, það er 10 prósent.
Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að þær lagabreytingar sem lagðar séu til í frumvarpinu munu lækka skatttekjur ríkissjóðs, frá því sem annars hefði orðið, um 2 milljarða á næsta ári. Í fjárlagafrumvarpi fyrir komandi ár er gert ráð fyrir að tekjur af erfðafjárskatti verði 5,2 milljarðar en ef frumvarpið nær fram að ganga verða þær um 3,2 milljarðar.
Lækkun erfðafjárskatts eykur misskiptingu
Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, var einn þeirra sem skilaði inn umsögn um frumvarp fjármálaráðherra í samráðsgátt. Hann segir að þrepaskiptingin sem lögð er til í frumvarpinu sé til þess falinn að auka misskiptingu eigna og samþjöppun þeirra.
Hann bendir á að í nýlegum upplýsingum Hagstofu Íslands komi fram að um 60 prósent eigna er í höndum þeirra 10 prósent framteljenda sem mest eiga.
„Tvískipting skattstiga erfðafjárskatts er í sjálfu sér ekki slæm hugmynd en ókostirnir eru þeir að sú leið að setja nýtt lægra þrep í stað nýs hærra þreps mun auka á það ójafnræði sem þegar er fyrir í því að hafa þessar tekjur lítið skattlagðar í samanburði við aðrar tekjur. Þessi lága skattlagning á háar arfstekjur er einnig til þess fallinn að auka misskiptingu eigna og samþjöppun þeirra,“ skrifar Indriði.
Hann segir að úr hvoru tveggja mætti draga með því að bæta við hærra skattþrepi í stað lægra skattþreps. Eða jafnvel að hækka núverandi þrep og bæta öðru við til dæmis 15 prósent og 25 prósent að fyrirmynd Dana. Úr áhrifunum á lágan arð mætti draga með því að hækka frímark arfs sem nú er 1,5 milljónir króna.
Hann segir jafnframt að frímarkið og fyrirhuguð þrepaskiptingin sé gölluð að því leyti að hún miðast við dánarbúið en ekki arftakana sem eru hinir raunverulegu greiðendur skattsins.
„Þannig er einbirnum og fámennum erfingjahópum ívilnað miðað þau tilvik þegar erfingjar eru fleiri. Þetta mætti laga með því að miða frítekjumarkið og væntanlegt þrep við hvern lögerfingja í stað dánarbúsins,“ skrifar Indriði.
Hann segir jafnframt að ekki komi fram í greinargerðinni hvernig fyrirhuguð lækkun skattsins um tvo milljarða króna á ári komi niður á framteljendur eftir tekjum eða eignum.
Leggja til að hæsta þrepið verði 20 prósent
Þingmenn Viðreisnar lögðu fram frumvarp um breytingar á lögum um erfðafjárskatt á Alþingi í lok september. Með frumvarpinu leggja þingmennirnir til að horfið verði frá því að líta á dánarbú manns sem andlag erfðafjárskatts og þess í stað verði horft til arfs hvers erfingja um sig sem andlag erfðafjárskattsins. Þar með verði skatttekjur ríkisins vegna hvers dánarbús háðar fjölda erfingja búsins og arfshluta þeirra.
Með frumvarpinu er lagt til að hlutfall erfðafjárskatts verði breytilegt eftir upphæð þess arfs sem fellur erfingja í hlut við skipti tiltekins dánarbús. Skatthlutföllin verði í raun fjögur, 0 prósent, 10 prósent, 15 prósent og 20 prósent.
Þingmennirnir leggja til að af fyrstu 15 milljónunum skal greiða 10 prósent erfðafjárskatt, af næstu 15 milljónum skal greiða 15 prósent erfðafjárskatt og af þeim hluta arfs sem er umfram 30 milljónir skal greiða 20 prósent erfðafjárskatt. Þá er lagt til að hver erfingi greiði engan skatt af fyrstu 6.5 milljónunum.
„Arfur verður ekki til fyrr en bú hefur verið gert upp. Að vissu leyti má segja að tilviljun ráði hvað komi til skipta og auki þannig eignir og tekjumöguleika erfingja. Það er eðlilegt að þeir erfingjar sem mest fá greiði hlutfallslega mest í skatt. Breytingin stuðlar líka að því að draga úr auðsöfnun á fárra manna hendur. Með því að persónubinda afsláttinn fá fleiri í sinn hlut arf án skattheimtu. Þannig dreifist arfur betur til einstaklinga í samfélaginu um leið og erfðafjárskattur sem kemur í hlut ríkisins við skipti minni dánarbúa lækkar,“ segir í greinargerðinni.
Í frumvarpinu kemur fram að erfitt sé að sjá fyrir með fullri vissu hver áhrifin á tekjur ríkisins verða ef frumvarp þingmannanna nær fram að ganga.