„Landsvirkjun er falið að semja fyrir hönd þjóðarinnar við alþjóðleg stórfyrirtæki um sölu á endurnýjanlegri orku. Því fylgir mikil ábyrgð, þar sem um er að ræða eina mikilvægustu viðskiptasamninga sem gerðir eru á Íslandi og eru miklir hagsmunir undir. Að undanförnu höfum við legið endurtekið undir ámæli frá formanni Verkalýðsfélags Akraness fyrir að ætla að „slátra“ viðskiptavinum okkar eins og Elkem með óbilgirni í samningaviðræðum. Ekkert er fjær sanni.“
Þetta segir í stöðuuppfærslu á Facebook sem Landsvirkjun, orkufyrirtæki í 100 prósent eigu íslenska ríkisins, birti í dag.
Tilefnið eru ummæli Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags Akraness, um raforkusamninga sem Landsvirkjun hefur gert við Elkem og Norðurál, sem hefur starfsemi á Grundartanga en starfsmenn fyrirtækisins eru að uppistöðu félagsmenn Vilhjálms.
Vilhjálmur ásakaði Landsvirkjun um óbilgirni gagnvart Elkem í stöðuuppfærslu á Facebook þann 21. ágúst vegna hækkunar á raforkuverði til fyrirtækisins í nýjum samningi sem tók gildi 1. apríl 2019. Þar fjallaði hann líka um endurnýjaðan samning við Norðurál tekur gildi í nóvember 2019 og gildir til loka árs 2023. Í stöðuuppfærslunni kom fram að Vilhjálmur óttaðist um starfsöryggi félagsmanna sinna og að hann vildi að Landsvirkjun myndi niðurgreiða störf hjá stóriðjufyrirtækjunum tveimur með því að stilla arðsemi sinni af raforkusölu í hóf.
Vill að íslenskir stjórnmálamenn grípi til aðgerða
Í byrjun síðustu viku var Vilhjálmur í viðtali á Bylgjunni þar sem hann ræddi um ótta sinn við að gríðarleg hækkun á raforkuverði til Norðuráls og Elkem Ísland á Grundartanga „muni ógna atvinnuöryggi og lífsviðurværi minna félagsmanna.“
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, kom í viðtal í saman þátt, Reykjavík síðdegis, daginn eftir til að svara fyrir ávirðingar Vilhjálms og hafnaði þeim enn og aftur.
Í pistli sem Vilhjálmur skrifaði í kjölfarið, þar sem hann gagnrýnir Hörð harðlega, segir hann meðan annars að það sé „eins og forstjóri Landsvirkjunar átti sig ekki á hlutverki forystumanna í stéttarfélögum, en eitt af aðalstörfum okkar er að verja atvinnuöryggi og lífsviðurværi okkar félagsmanna og það er ég að gera, enda er klárlega verið að ógna lífsviðurværi þúsunda fjölskyldna í þessum iðnaði[...]ú er tími til kominn að íslenskir stjórnmálamenn og stjórnvöld grípi í taumana í þessu máli áður en það verður of seint og þúsundir fjölskylda missi lífsviðurværi sitt og leggja afkomu sveitarfélaga sem byggja tekjustofna sína á þessum iðnaði nánast í rúst.“
Viðskiptastríðið lækkar afurðaverð
Í stöðuuppfærslu Landsvirkjunar fyrr í dag segir að markmið fyrirtækisins í þeim samningum sem gerðir hafa verið við Elkem og Norðurál sé að bjóða samkeppnishæf kjör, sambærileg því sem best gerist annars staðar. „Við höfum áður sagt að samningur við Elkem á Grundartanga, eftir ákvörðun gerðardóms, feli í sér rafmagnsverð sem nái ekki meðalkostnaðarverði virkjana okkar. Fram hafa komið staðhæfingar um að þar höfum við einungis átt við kostnaðarverð nýrra virkjanakosta, en það er rangt. Raforkuverð í nýjum samningi Elkem nær hvorki kostnaðarverði núverandi virkjana Landsvirkjunar né nýrra virkjanakosta.
Við höfum einnig sagt að samningur Elkem sé á meðal þeirra hagstæðustu sem í gildi séu í heiminum. Fram hafa komið staðhæfingar um að ríkisstyrkir séu ekki séu teknir með við samanburð okkar, en það er rangt. Greiningar Landsvirkjunar eru unnar í samvinnu við stór alþjóðleg ráðgjafarfyrirtæki sem sérhæfa sig í greiningum af þessu tagi. Í þeim samanburði tökum við tillit til ríkisstyrkja sem fyrirtæki njóta, m.a. í Noregi. Að teknu tilliti til alls þessa er raforkusamningur Elkem einn sá hagstæðasti sem er í boði.
Hafa ber í huga að rekstrarumhverfi stóriðjufyrirtækja um allan heim er krefjandi um þessar mundir og þar með talið á Íslandi – ekki vegna raforkuverðs Landsvirkjunar – heldur fyrst og fremst vegna lágs afurðaverðs sem má meðal annars rekja til viðskiptastríðs Bandaríkjanna og Kína.“
Landsvirkjun er falið að semja fyrir hönd þjóðarinnar við alþjóðleg stórfyrirtæki um sölu á endurnýjanlegri orku. Því...
Posted by Landsvirkjun on Wednesday, October 23, 2019