Byggingariðnaði fylgir mikil myndun úrgangs og er sá úrgangur að jafnaði stærsti úrgangsflokkur landa. Ísland er þar engin undantekning en á síðustu árum hefur úrgangur frá mannvirkjagerð aukist gífurlega, sem og losun gróðurhúsalofttegunda, samhliða mikilli uppsveiflu í byggingargeiranum á síðustu árum.
62 prósent af úrgangi á Íslandi
Í tölum Umhverfisstofnunar kemur fram að úrgangur frá mannvirkjagerð var rúmlega 873.522 tonn árið 2017 en það er byggingar- og niðurrifsúrgangur auk óvirks úrgangs. Árið 2014 taldi slíkur úrgangur 364.943 tonn og hefur úrgangur því tvöfaldast á þremur árunum.
Þá hefur magn af grófum úrgangi sem berst til móttöku- og flokkunarstöðvar Sorpu, sem tekur aðallega við úrgangi frá heimilum, einnig aukist til muna á síðustu árum. Grófur úrgangur er til að mynda innréttingar, ónýt húsgögn, gólfefni og svo fleiri. Sá úrgangur hefur aukist úr 4.600 tonnum árið 2015 í 9.600 tonn árið 2017.
Byggingar- og niðurrifsúrgangur var alls 49 prósent af úrgangi á Íslandi árið 2017. Ef óvirkur úrgangur er hins vegar reiknaður með þá er úrgangur af mannvirkjagerð 62 prósent af heildarúrgangi Íslendinga. Óvirkur úrgangur er til að mynda múrbrot, gler og uppmokstur.
Losun frá byggingariðnaði eykst aftur eftir hrun
Vexti í byggingariðnaði hefur ekki einungis fylgt aukinn úrgangur heldur einnig aukin losun gróðurhúsalofttegunda. Í tölum Hagstofu Íslands má sjá að verulega hægðist á losun koltvísýrings frá byggingariðnaði á árunum eftir hrun. Árið 2013 var losun frá hagkerfi Íslands vegna byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð alls 135,18 tonn. Fjórum árum síðar var losunin 189,79 tonn og hafði því aukist um 40 prósent.
Þá hefur losun metans frá byggingarstarfsemi aukist samhliða losun koltvísýrings og var alls 113,56 kílótonn árið 2017 en 80,7 kílótonn árið 2013.
Fyrir liggur að þúsundir bygginga munu rísa upp hér á landi á næstu þremur árum og má því búast við áframhaldandi aukningu í úrgangsmyndun og losun koltvísýrings.
Hægt að draga úr mengun
Íslensk stjórnvöld hafa sett sér stefnu um myndun úrgangs um landið allt til tólf ára í senn. Markmið stefnunnar er að draga úr úrgangi og draga þar með úr losun gróðurhúsalofttegunda. Auk þess er markmiðið að bæta nýtingu auðlinda, meðal annars með því að leggja áherslu á græna nýsköpun. Núverandi úrgagnsstefna stjórnvalda, Saman gegn sóun, er stefna stjórnvalda fyrir tímabilið 2016 til 2027.
Í stefnuyfirlýsingunni eru ákveðnir úrgangsflokkar í brennidepli á hverju ári og ráðgert er að verkefni sem heyri undir þessa flokka verði til úti í samfélaginu og á meðan hver flokkur er í forgangi þá sé mögulegt að sækja um verkefnastyrki til ráðuneytisins. Grænar byggingar verða árið 2024 í brennidepli, samkvæmt stefnuyfirlýsingunni.
Í stefnunni segir að með því að setja sjálfbæra byggingarstarfsemi í brennidepil megi því draga úr myndun byggingar– og niðurrifsúrgangs sem leiðir af sér samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, bætta nýtingu auðlinda og minnkaða dreifingu á efnum sem eru skaðleg umhverfinu.