Norrænu knattspyrnusamböndin hafa ákveðið að sækja sameiginlega um að halda heimsmeistaramót kvenna árið 2027. Tilkynnt var um þetta á Norðurlandaráðsþingi í gær og staðfestir Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ), þessa ákvörðun í samtali við Kjarnann. Hún segir að KSÍ sé mjög stolt af því að taka þátt í þessu verkefni með hinum fimm samböndunum.
Undirbúningurinn staðið yfir í þrjú ár
Klara segir að að norrænu knattspyrnusamböndin sex, að KSÍ meðtöldu, hafi verið að vinna að þessu verkefni í að verða þrjú ár núna. Samböndin hafa staðið að nákvæmri greiningarvinnu á mögulegum mótahöldum og að niðurstaða sambandanna hafi verið að sækja um að halda heimsmeistaramótið í knattspyrnu kvenna árið 2027
Að mati sambandanna er það mót sem þau telja sig ráða hvað best við þegar litið er til stærðar móts og leikvalla.
Klara segir að öll sex knattspyrnusamböndin séu að baki umsóknarferilsins þó að stóru þjóðirnar dragi vissulega vagninn. Hún segir það jafnframt ánægjulegt hve einhuga samböndin séu um þessa umsókn og að nú fundi samtökin um hvaða vellir það eru sem löndin geta lagt til.
Hún segir að það sé hins vegar ekki komið í ljós hvaða kröfur FIFA gerir til að mynda til fjölda og stærðar leikvalla fyrir heimsmeistaramótið 2027.
Ísland ætlar sér að taka fullan þátt
Klara segir enn fremur að umsókn norrænu samtakanna muni byggja á norrænum gildum um jafnréttismál og umhverfismál og sýna skýrt hvað Norðurlöndin standa fyrir. Hún bendir þó á að um erfiða samkeppni sé að ræða en alls sóttu sóttu sjö þjóðir um að halda mótið árið 2024.
Hún segir það aftur á móti ljóst að eins og staðan er núna þá séu engir leikvellir hér á landi sem gætu komið til greina sem keppnisvellir á heimsmeistaramótinu. Hún segir að Ísland og Færeyjar ætli sér þó að taka fullan þátt í undirbúningsferlinu og framkvæmd mótsins ef komi til þess.
Að lokum segir hún að KSÍ sé mjög stolt af því að taka þátt í þessu verkefni með hinum samböndunum. „Við erum full tilhlökkunar og vonum að þetta gangi allt saman upp,“ segir Klara.