Ef sérstakur bankaskattur yrði afnumin með öllu myndi söluandvirðið sem ríkissjóður getur vænst að fá fyrir hlutafé í Íslandsbanka og Landsbanka, yrðu þeir seldir að fullu, hækka um 70 milljarða króna. Þetta er mat Bankasýslu ríkisins sem kynnti þá greiningu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd í síðustu viku. Ef skatturinn verður lækkaður niður í 0,145 prósent, líkt og stendur til að gera í nokkrum skrefum á næstu árum, mun söluandvirðið aukast um 44 milljarða króna. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu.
Yfirlýst stefna sitjandi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er að selja hluta af eign ríkisins í fjármálakerfinu. Heimild er til þess í fjárlögum að selja allt hlutafé í Íslandsbanka og allt að 66 prósent hlut í Landsbankanum.
Í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið, sem birt var í desember í fyrra, var fjallað ítarlega um hvernig skuli standa að sölu á hlutafé í ríkisbönkunum, Landsbankanum og Íslandsbanka, og er horft til þess að nota skráðan markað til þess að endurskipuleggja eignarhald með þeim hætti, að dreift og traust eignarhald verði hluti af fjármálakerfinu til framtíðar. Þar var líka sérstaklega fjallað um að það gæti verið æskilegt að breyta skattstofni bankaskatts.
Bankasýslan á að horfa til niðurstöðu þeirrar vinnu við mótun á því hvernig færi best að selja ríkisbankanna. Hún lagði fram minnisblað á ráðherrafundi um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins í lok ágúst síðastliðins þar sem lagt var til að annað hvort ætti að selja 25 prósent hlut í Íslandsbanka í hlutafjárútboði og skrá þau bréf tvíhliða á markað, eða að selja allt að öllu hlutafé í bankanum með uppboðsleið þar sem önnur fjármálafyrirtæki eða sjóðir geti gert tilboð í hann. Aðgerðirnar hafa ekki verið tímasettar enn sem komið er.
Samanlagt eigið fé bankanna tveggja um mitt þetta ár var um 417 milljarðar króna. Ríkisbankarnir greiddu eigendum sínum 207 milljarða króna í arð á árunum 2013-2018.
Lækkun bankaskatts frestað
Í byrjun september kynnti Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, nýtt frumvarp um lækkun á bankaskatti. Samkvæmt því verður hinn sérstaki bankaskattur lækkaður úr 0,376 prósent af heildarskuldum þeirra fjármálafyrirtækja sem greiða hann í 0,145 prósent.
Frumvarpið hafði áður verið lagt fram í apríl síðastliðnum og þegar gengið til efnahags- og viðskiptanefndar. Þá átti fyrsta skref lækkunarinnar að taka gildi á næsta ári, 2020.
Þegar fjármálaáætlun var breytt í júní var hins vegar ákveðið að fresta lækkun bankaskattsins um eitt ár. Hann mun því ekki byrja að lækka á næsta ári, heldur árið 2021, og vera komin til framkvæmda að öllu leyti árið 2024. Þær breytingar voru gerðar vegna breyttra aðstæðna í íslensku efnahagslífi, aðallega vegna gjaldþrots WOW air og loðnubrests.
Verði frumvarpið að lögum má ætla að tekjur hins opinbera lækki um 18 milljarða króna á árunum 2020 til 2023. Í greinargerð sem fylgdi upprunalega frumvarpinu, sem var lagt fram í apríl, sagði að horft væri til þess að lækkunin á bankaskatti myndi skila sér til almennings í gegnum betri kjör hjá fjármálastofnunum.
Bankasýslan hefur skilað umsögn um það frumvarp þar sem hún fagnar lækkun bankaskattsins.
Andstaða hjá landsmönnum við sölu banka
Alls eru 61,2 prósent landsmanna jákvæðir gagnvart því að íslenska ríkið sé eigandi viðskiptabanka. Fjórðungur þjóðarinnar, 25,2 prósent, hefur enga fastmótaða skoðun á slíku eignarhaldi og einungis 13,5 prósent Íslendinga eru neikvæðir gagnvart slíku eignarhaldi.
Þetta er meðal þess sem kom fram í rannsókn sem Gallup vann fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið og birtist með Hvítbókinni. Markmið könnunarinnar var að skoða ítarlega traust til bankakerfisins á Íslandi, hverjar væru helstu ástæður fyrir vantrausti og hvað mætti betur fara. Úrtakið var 1.408 manns 18 ára og eldri af landinu öllu. Þátttökuhlutfall var 54,5 prósent.
egar þeir sem eru jákvæðir gagnvart því að ríkið sé eigandi viðskiptabanka voru spurðir af hverju sögðu 24,4 prósent þeirra, eða tæplega fjórðungur, að ríkið væri betri eigandi en einkaaðili. Fimmtungur sagði að helsta ástæðan væri öryggi og/eða traust og 18,3 prósent vegna þess að arðurinn færi þá til almennings. Þá sögðu 15,7 prósent að helsta ástæða þess að þeir væru jákvæðir gagnvart því að ríkið sé eigandi viðskiptabanka vera þá að það þýddi að minni líkur væru á því að hlutirnir myndu enda illa og að spilling og græðgi yrði minni.
Þeir sem voru neikvæðir gagnvart því að ríkið væri eigandi viðskiptabanka töldu það ekki vera hlutverk ríkisins né að það væri hæft til þess að eiga viðskiptabanka. Þá væri hætta á spillingu og eignarhald á viðskiptabanka væri þar að auki áhættusamt fyrir ríkið.