Mynd: Mannlíf

Nýr veruleiki á markaði

Ýmsir óttast að ládeyða á íslenskum hlutabréfamarkaði sé komin til að vera, ef fjárfestingar glæðast ekki með meiri áhuga fjárfesta. Sé litið til baka þá kunna fjármagnshöftin að hafa verið áhrifameiri fyrir efnahagslífið en margir áttuðu sig á. Þrátt fyrir allt, gegnir skráður markaður verulega mikilvægu hlutverki fyrir almenning í landinu. Stjórnvöld gætu stigið skrefið og eflt hann með sölu á ríkiseignum í gegnum hann.

Sé horft fram hjá gengi Marel í kaup­höll­inni, sem hefur hækkað um tæp­lega 50 pró­sent á síð­ustu tólf mán­uð­um, mest í aðdrag­anda skrán­ingar í Euro­next kaup­höll­ina í Amster­dam, og er rúm­lega 450 millj­arða virði, þá hefur verið fátt um fína drætti og ávöxtun verið lítil sem engin að með­al­tali. 

Ástæðan er meðal ann­ars minni eft­ir­spurn en var þegar fjár­magns­höftin voru fyrir hendi, en þá voru líf­eyr­is­sjóðir dug­legri við að kaupa hluta­bréf, eins og eðli­legt er meðan mark­að­ur­inn var að byggj­ast upp eftir alls­herj­ar­hrun haustið 2008. 

Fjár­magn líf­eyr­is­sjóð­anna gat ekki leitað út úr hag­kerf­inu, á meðan höftin voru fyrir hendi - á árunum 2008 til 2016. Á þessu tíma­bili hækk­aði fast­eigna­verð einnig mikið - um tæp­lega 50 pró­sent á árunum 2013 til 2018, og mikið fjár­magn var í umferð.

Þegar höftin voru afnumin að mestu árið 2016 þá breytt­ust aðstæður mik­ið. Erlendir fjár­festir sýndu hag­kerf­inu auk­inn áhuga á nýjan leik, til skamms tíma, en á móti kom að fjár­fest­ar, ekki síst líf­eyr­is­sjóð­ir, færðu fjár­magn út fyrir land­stein­anna. 

Segja má að ákveð­inn hápunktur hafi verið á því mikla hag­vaxt­ar­skeiði sem var á hafta­tíma­bil­inu um það leyti sem höftum var aflétt. Um fjórum mán­uðum eftir að til­kynnt var um afnámið þá mæld­ist árs­hækkun fast­eigna­verðs 23,5 pró­sent, og var þá mesta hækkun meðal þró­aðra ríkja í heim­in­um. Gengi krón­unnar hafði einnig styrkst jafnt og þétt, enda jókst umfangið í hag­kerf­inu á þessum tíma, ekki síst.

Sé horft aftur til árs­ins 2016 þá er staðan svipuð nú og hún var, að frá­dregnu gengi Mar­els. Með­al­tals­á­vöxtun þeirra félaga sem eru á aðal­l­ista hefur verið lítil sem eng­in, nálægt núlli. Sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans hefur þetta valdið nokkrum áhyggjum hjá fjár­festum að und­an­förnu, þar sem ávinn­ing­ur­inn af hinum skráða mark­aði hefur ekki verið nægi­lega mik­ill. Hafa einka­fjár­festar rætt þetta sín á milli og velt því fyrir sér hvort best sé að afskrá félög.

Á sér skýr­ingar

Verð­mið­inn á félög­unum er einnig fremur lág­ur, í alþjóð­legum sam­an­burði. Verðið er að með­al­tali um 1,4 sinnum eigið fé, en algengt er í alþjóð­legum kaup­höllum að með­al­talið sé nærri þrír. Kjarn­inn hefur fylgst náið með þessu við­miði und­an­farin fimm ár, og hefur það hæst farið í 1,6 sinnum eigið fé á því tíma­bil­i. 

Það er vissu­lega ólíku saman að jafna, þegar kemur að félögum í inn­lendri starf­semi á Íslandi og síðan stærri félög í alþjóð­legri starf­semi, en engu að síður gefa svona með­al­töl ákveðna vís­bend­ingu um hvernig fjár­festar horfa til rekst­urs félag­anna.

En þó verð­miðar hafi ekki hækkað mikið þá hefur margt annað spilað inn í en áhuga­leysi fjár­festa. Frekar er lík­legt að bjög­unin sem fylgdi fjár­magns­höft­un­um, hafi ýtt undir eigna­verð - bæði hluta­bréfa og fast­eigna - og síðan hafi aðlög­unin orðið nokkuð aug­ljós­lega niður á við eftir að höftin voru los­uð. 

Erlendir fjár­festar hafa komið inn, en þó ekki í sama mæli og hefði verið æski­legt til að vinna upp á móti breyttri fjár­fest­inga­hegðun líf­eyr­is­sjóð­anna, sem eru bak­beinið í hluta­bréfa­mark­aðnum með rúm­lega helm­ing allra hluta­bréfa á mark­aði sem eig­end­ur.

Vantar fleiri félög

Líf­eyrir lands­manna nemur sam­tals um 4.800 millj­örðum króna þessi miss­eri. Þar af voru eignir sam­trygg­inga­deilda 4.308 millj­arðar króna og sér­eigna­deilda 490 millj­arðar Inn­lendar eignir líf­eyr­is­sjóða námu 3.418 millj­örð­um. Þar af voru inn­lán í inn­lendum inn­láns­stofn­unum 167 millj­arðar króna og inn­lend útlán og mark­aðs­verð­bréf 3.115 millj­arð­ar. Erlendar eignir líf­eyr­is­sjóða voru 1.379 millj­arðar í lok ágúst.

Að mati við­mæl­enda Kjarn­ans er helsti veik­leika íslenska mark­að­ar­ins ekki endi­lega bundin við að ekki sé nægi­leg velta, heldur frekar að meiri áhugi þurfi að koma erlendis frá. Þannig sé hægt að ýta undir betri ávöxtun og einnig fleiri mögu­leika og nýsköpun í atvinnu­líf­inu almennt. 

Baldur Thor­laci­us, við­skipta­stjóri hjá Nas­daq, gerði þetta að umtals­efni í grein á vef Kjarn­ans á mið­viku­dag, og sagði þar að sam­an­burður við erlendar kaup­hallir sýndi að veltan á íslenska mark­aðnum væri hlut­falls­lega ekki lít­il. 

Veltu­hrað­inn (velta miðað við stærð fyr­ir­tækja) það sem af er ári 54 pró­sent að með­al­tali fyrir stór fyr­ir­tæki á Íslandi en 54 – 62 pró­sent á hinum nor­rænu kaup­höllum Nas­daq. Þá er hann 71 pró­sent í sam­an­burði við 21 – 60 pró­sent fyrir með­al­stór fyr­ir­tæki og 69 pró­sent sam­an­borið við 19 – 41 pró­sent fyrir lítil fyr­ir­tæki. 

Eigið fé og markaðsvirði skráðra félaga á Íslandi.„Það er því varla hægt að kvarta undan veltu með hvert og eitt félag. Flest íslensk fyr­ir­tæki telj­ast aftur á móti lítil á alþjóð­legan mæli­kvarða og skráð félög eru of fá, sem skýrir lík­lega þennan mis­skiln­ing. Það vantar ein­fald­lega fleiri félög á markað til þess að auka heild­ar­velt­una. Það vantar fleiri lítil og með­al­stór nýsköp­un­ar­fyr­ir­tæki á markað til þess að skapa áhuga­verð störf og nýta þau fjöl­mörgu tæki­færi sem leyn­ast í íslensku hug­viti. Það vantar fleiri stór fyr­ir­tæki á markað til þess koma Íslandi betur á kortið hjá alþjóð­legum stofn­ana­fjár­fest­um. Þetta mun seint ger­ast ef við höldum áfram að dreifa rang­færslum um lélega veltu og tala niður skrán­ingar á mark­að,” segir meðal ann­ars í grein Bald­urs.

Að hans mati þurfi frekar að leita leiða til koma fleiri fyr­ir­tækjum á mark­að.

„Ís­lenski hluta­bréfa­mark­að­ur­inn stendur að mörgu leyti traustum fótum í dag en það er margt sem má betur fara. Við þurfum að greiða leið nýrra fyr­ir­tækja inn á markað svo íslenskt atvinnu­líf geti blómstrað og við þurfum að fá almenn­ing og erlenda fjár­festa inn af meiri krafti til þess að fá fjöl­breytt­ari skoð­ana­skipti og njóta betur „visku fjöld­ans“, svo dæmi séu tek­in,” segir í grein Bald­urs.

Enn fremur segir að það ætti að vera for­gangs­at­riði, að efla skráðan markað frekar en að tala hann niður að óþörfu. „Það hefur sjaldan verið mik­il­væg­­ara en nú að stjórn­­völd, atvinn­u­lífið og fjár­­­mála­­kerfið taki höndum saman um að efla hluta­bréfa­­mark­að­inn, þegar hag­­kerfið er komið á brems­una og bankar eru farnir að draga úr útlán­­um. Hættum að tala niður það sem gengur vel og göngum strax í að bæta það sem bæta má.“

Hag­ræð­ing og ein­angr­un?

Eins og rakið var í frétta­skýr­ingu á þessum vett­vangi fyrir skemmstu undir fyr­ir­sögn­inni; Hvað er að ger­ast í hag­kerf­inu?, þá bendir margt til þess að tölu­verður hæga­gangur sé nú í hag­kerf­in­u. 

Mik­ill sam­dráttur hefur verið í inn­flutn­ingi, eða um sem nemur 9 pró­sentum miðað árið í fyrra, og einka­neysla hefur dreg­ist tölu­vert sam­an. 

Í sam­tölum við sér­fræð­inga og grein­endur á fjár­mála­mark­aði, mátti greina tölu­verðar áhyggjur af þess­ari stöðu, jafn­vel þó und­ir­stöð­urnar í hag­kerf­inu væru traustar, það er að skuldir heim­ila og fyr­ir­tækja væru ekki of mikl­ar. 

Það sé kom­inn upp nýr veru­leiki sem erfitt sé að lesa í hvernig muni þró­ast. Þó stýri­vaxta­lækk­anir séu af hinu góða, og í takt við Lífs­kjara­samn­inga aðila vinnu­mark­að­ar­ins og stjórn­valda, þá er það ládeyðan á mark­aði - ekki síst hluta­bréfa­mark­aðnum - sem við­mæl­endum fannst gefa til­efni til þess að ákveð­inn doði sé að mynd­ast í hag­kerf­inu, eins og er víða vanda­mál í heim­inum um þessar mund­ir. 

Hag­vaxt­ar­spár gera ráð fyrir litlum sem engum hag­vexti á þessu ári, eftir 4,6 pró­sent hag­vöxt í fyrra. Á næsta ári mun hag­kerfið taka við sér aft­ur, að mati flestra grein­enda. Það er hins vegar háð því að það tak­ist að spyrna við fót­u­m. 

Eins og staðan er núna, virð­ist lík­legt að vet­ur­inn muni ein­kenn­ast af frek­ari hag­ræð­ingu, með fækkun starfa og breyt­ingum í hag­kerf­inu. Það er ekki víst að það heyr­ist mikið af því í formi hóp­upp­sagna, heldur frekar að fyr­ir­tæki muni draga saman seglin - í eilífri leit að betri rekstr­ar­grund­velli.

Þá eru áhrifin af auk­inni sjálf­virkni­væð­ingu einnig ekki hluti af ein­hverri fjar­lægðri fram­tíð, heldur má sjá slíka þróun glögg­lega í nýjum samn­ingum fyr­ir­tækja. Í vik­unni var til­kynnt um kaup Brims á tækjum og tækni frá Mar­el, sem mun gera bol­fisk­vinnslu fyr­ir­tæk­is­ins þá full­komn­ustu í heim­i. 

Hún mun þurfa mun færri hendur en hún gerir núna, en um leið verða afkasta­meiri og stuðla að betri nýt­ingu hrá­efn­is. Þó íslenskur sjáv­ar­út­vegur hafi lengi verið á þess­ari veg­ferð - með auk­inni vél­væð­ingu og sjálf­virkni - þá má gera ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram á næst­unni, af meiri hraða og krafta en und­an­farin ár. 

Fyrir rúm­lega 200 þús­und manna vinnu­mark­að­inn á Íslandi, þá getur hvert til­felli þar sem störfum fækkar tölu­vert í einni svipan með auk­inni tækni og sjálf­virkni, valdið titr­ingi, t.d. hjá verka­lýðs­hreyf­ing­unni, eins og eðli­legt er.

Efl­ing og sala á rík­is­eignum

Stjórn­völd hafa það á stefnu­skránni að selja Íslands­banka og lengi vel var horft til þess að selja einnig stóran hluta af eign­ar­hlut í Lands­bank­an­um, en halda eftir 30 til 40 pró­sent hlut. 

Sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans hefur verið rætt um það að und­an­förnu, að horfa til hluta­bréfa­mark­að­ar­ins þegar kemur að sölu. Það er að skrá Íslands­banka á mark­að, og selja þannig eign­ar­hlut í bank­an­um. Í fyrstu væri það ekki allur bank­inn, heldur frekar að hefja sölu­ferlið með því að selja hluta í bank­an­um, til dæmis 10 til 15 pró­sent, og stíga þannig skrefið sem til­tekið er í stjórn­ar­sátt­mála Vinstri grænna, Sjálf­stæð­is­flokks­ins og Fram­sókn­ar­flokks­ins. 

Í honum seg­ir: „Fjár­mála­kerfið á að vera traust og þjóna sam­fé­lag­inu á hag­kvæman og sann­gjarnan hátt. Eign­ar­hald rík­is­ins á fjár­mála­fyr­ir­tækjum er það umfangs­mesta í Evr­ópu og vill rík­is­stjórnin leita leiða til að draga úr því. Ljóst er þó að rík­is­sjóður verður leið­andi fjár­festir í að minnsta kosti einni kerf­is­lega mik­il­vægri fjár­mála­stofn­un.” 

Þá er einnig kveðið á um að hvít­bókin um fjár­mála­kerfið - sem þegar hefur verið skilað og hún kynnt opin­ber­lega - sé leið­ar­vísir um hvernig eigi að móta stefnu fjár­mála­kerf­is­ins til fram­tíðar lit­ið. 

„Leið­ar­ljósin í vinnu við hvít­bók­ina verða aukið traust á íslenskum fjár­mála­mark­aði, aukið gagn­sæi og fjár­mála­stöð­ug­leiki. Þótt mik­il­vægar umbætur hafi verið gerðar á lagaum­hverfi fjár­mála­fyr­ir­tækja er brýnt að gera bet­ur. Eign­ar­hald á kerf­is­lega mik­il­vægum fjár­mála­stofn­unum verður að vera gagn­sætt. Rík­is­stjórnin vill að unnið verði að frek­ari skil­virkni í fjár­mála­kerf­inu með það að leið­ar­ljósi að lækka kostnað neyt­enda. Mik­il­vægt er að dregið sé úr áhættu vegna óskyldra þátta í starf­semi fjár­mála­fyr­ir­tækja. Í mótun að fram­tíð­ar­fyr­ir­komu­lagi skal sér­stak­lega litið til ann­arra lít­illa opinna hag­kerfa og reynslu ann­ars staðar á Norð­ur­lönd­um,” segir í stjórn­ar­sátt­mál­an­um.

Í henni er fjallað um hvernig ríkið geti losað um eign­ar­hald sitt, og sér­stak­lega vikið að skrán­ingu á markað sem mögu­leika. Ljóst er að slík leið myndi stór­efla skráðan markað hér á land­i. 

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur markað sér þá skýru stefnu að vilja selja hluti í ríkisbönkum.
Mynd: Birgir Þór

En það er samt ekki ólík­legt að um þessi skref verið harka­lega deilt í stjórn­mál­um. Í stefnu rík­is­stjórn­ar­flokk­anna eru afar ólíkar áhersl­ur. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn er með skýra stefnu um að vilja selja eign­ar­hluti í rík­is­bönk­un­um, en það á ekki við um Fram­sókn­ar­flokk­inn og Vinstri græn. 

Þar er meira horft til þess að móta ramma um fjár­mála­kerfið þar sem almanna­hags­muni ráði ferð­inni, og að skilið sé á milli fjár­fest­inga- og við­skipta­banka­starf­semi. Það er helst að það sé ­stjórn­ar­sátt­mál­in ­sem sé leið­ar­stefið sem horfa þurfi til, en eins og fyrr segir er þar ekki að finna skýra leið­sögn um hvernig eigi að standa að mál­u­m. 

Mikil verð­mæti liggja í rík­is­bönk­un­um. Sam­an­lagt eigið fé þeirra er um 415 millj­arð­ar, þar af 175 millj­arðar hjá Íslands­banka og 240 millj­arðar hjá Lands­bank­an­um. 

Sé horft til mark­aðsvirðis bank­anna, miðað við verð­mið­ann á Arion ­banka - sem skráður er á markað á Íslandi og í Sví­þjóð, og hefur stöðu kerf­is­lægs mik­il­vægs banka eins og hinir tveir fyrr­nefndu - þá er virði bank­anna um 280 millj­arðar króna. Sala á 10 pró­sent hlut í Íslands­banka, miðað við fyrr­nefnt verð (0,67 sinnum eigið fé) gæti skilað rúm­lega 11,7 millj­örðum króna í rík­is­kass­ann. 

Sá nýi veru­leiki sem er uppi er í hag­kerf­inu - með meiri hæga­gangi og ládeyðu á mörk­uðum - gerir tíma­setn­ingu til sölu hins vegar erf­iða. Bankar eru ekki vin­sælir til kaups á alþjóða­mörk­uðum þessi miss­er­in, þvert á móti. Við­mæl­endur Kjarn­ans bentu enn fremur á að breyt­ingar á sam­keppn­is­lög­um, sem nú hafa verið boð­að­ar, gætu auð­veldað hag­ræð­ingu á fjár­mála­mark­aði, t.d. með því að opna á sam­ein­ingu kerf­is­lægt mik­il­vægra banka sem til þessa hefur verið álit­inn fjar­lægur mögu­leiki vegna sam­keppn­islaga.

Þeir eru flestir að hag­ræða í rekstri og laga sig að nýjum tímum auk­innar tækni og sjálf­virkni, enda hefur nýtt reglu­verk í Evr­ópu sem opnar á greiðslu­miðlun fjár­tækni­fyr­ir­tækja, leitt til mik­illa breyt­inga sem ekki sér fyrir end­ann á. Ólíkt alþjóð­legum bönkum - og banka­kerf­inu fyrir hrun - þá er íslenska banka­kerfið hins vegar nær ein­göngu bundið við Ísland í þetta skipt­ið, og þykir nokkuð traust, sam­kvæmt upp­lýs­ingum sem koma fram í nýjasta Fjár­mála­stöð­ug­leika Seðla­banka Íslands. Þá á að þola áföll í atvinnu­lífi, þar sem eig­in­fjár­kröfur FME eru háar og gefa svig­rúm til að takast á við erf­ið­leika. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnMagnús Halldórsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar