Atli Rafn Sigurðarson, leikari sem var sagt upp störfum hjá Borgarleikhúsinu vegna meintrar kynferðislegrar áreitni, fær 5,5 milljónir króna í bætur og eina milljón króna í málskostnað vegna málsins, samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp í dag. Fréttablaðið greinir frá.
Atla Rafni var sagt upp í desember 2017 vegna ásakana sem settar höfðu verið fram af fjórum þáverandi starfsmönnum Borgarleikhússins um kynferðislega áreitni. Atli Rafn fékk ekki nánari upplýsingar um ásakanirnar né hverjir hefðu sett þær fram.
Dómurinn hefur ekki verið birtur á vef Héraðsdóms Reykjavíkur.
Stjórn Leikfélags Reykjavíkur segir í samþykkt að óvissa ríki um túlkun laga sem tryggja eigi vellíðan og öryggi starfsfólks eftir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu. Til skoðunar sé að áfrýja dóminum til Landsréttar.
Auður Jónsdóttir rithöfundur var viðstödd aðalmeðferð málsins í lok september og skrifaði um það álitsgrein sem birtist í Kjarnanum. Hana er hægt að lesa hér.