Sífellt fleiri ungar konur á aldrinum 18 til 24 ára borða ekki kjöt hér á landi. Frá árinu 2007 hefur hlutfall þeirra sem borðar aldrei kjöt margfaldast en mesta aukningin hefur átt sér síðustu tveimur árum. Þetta kemur fram í greiningu Gallup en samkvæmt greiningunni þá eru fáar vísbendingar um annað en áframhaldandi vöxt grænmetisfæðis hér á landi.
Fimmfalt fleiri hættar að borða nautakjöt
Í greiningu Gallups segir að neysla ungra íslenskra kvenna hafi tekið hvað mestum stakkaskiptum af öllum aldurshópum hér á landi á undanförnum árum. Í niðurstöðum neyslukönnunar Gallups má að sjá að alls sögðust rúm 5 prósent kvenna aldrei borða svínakjöt á árunum 2007 til 2009 en þetta hlutfall nær þrefaldaðist á árunum 2016 til 2018. Að meðaltali sögðust 14,3 prósent ungra kvenna ekki borða svínakjöt ef litið er til síðustu þriggja ára.
Mun stærri breytingar urðu þó á neyslu ungra kvenna á nautakjöti og lambakjöti þar sem hlutfall þeirra sem aldrei borðar nautakjöt og lambakjöt 4 til 5 faldaðist ef borin eru saman meðaltöl áranna 2007 til 2009 og 2016 til 2018.
Að meðaltali sögðust 16 prósent ungra kvenna ekki borða nautakjöt á árunum 2016 til 2018.
Enn fleiri sögðust vera hættar að borða kjúkling þegar borin eru saman sömu tímabil. Á árunum 2007 til 2009 sögðust 0,9 prósent kvenna aldrei borða kjúkling en nokkrum árum síðar eða á árunum 2016 til 2018 sögðust 10,6 prósent aldrei borða kjúkling.
Þeir sem neyta einskis kjöts enn lítið hlutfall af þjóðinni
Bæst hefur í hóp þeirra sem borða aldrei kjöt á síðustu árum en þó í mun minna mæli hjá ungum konum. Samkvæmt neyslukönnunum Gallup þá hefur hlutfall þeirra sem borða kjöt vikulega eða oftar að mestu leyti staðið í stað en þeim sem borða aldrei kjöt fjölgað verulega.
Til að mynda var hlutfall þeirra sem ekki borða svínakjöt, 18 ára og eldri, að meðaltali á árunum 2007 til 2009 3,8 prósent en jókst í 6,3 prósent að meðaltali árin 2016-2018.
Í greiningu Gallups segir að enn sem komið sé þó aðeins lítið hlutfall af þjóðinni sem neytir einskis kjöts. Í könnun Gallup á vormánuðum ársins 2019, þar sem spurt var hvort fólk væri á sérstöku mataræði eða kúr, kemur fram að tæplega 3 prósent landsmanna skilgreindi mataræði sitt sem grænmetisfæði og til viðbótar skilgreindi 1 prósentmataræði sitt sem vegan.
Bendir fátt annað en til áframhaldandi vaxtar grænmetisfæðis
Samkvæmt Gallup benda þó ofangreindar tölur til áframhaldandi aukningar á hlutfalli þeirra sem velja grænmetisfæði og hafa hætt að borða kjöt. Þá sérstaklega meðal ungra kvenna en einnig annarra hópa.
„Miðað við hratt hækkandi hlutfall þeirra sem neyta ekki kjötvara hér á landi og vaxandi áhuga á umhverfismálum finnast fáar vísbendingar um annað en áframhaldandi vöxt grænmetisfæðis og verður til framtíðar áhugavert að sjá hvort mögulegur vöxtur verði fyrst og fremst innan núverandi markhóps eða hvort neysluhópurinn muni breikka, þannig að grænmetisfæði verði algengara meðal karla og þeirra sem tilheyra eldri kynslóðum,“ segir í greiningu Gallups.