Auka þarf eftirlit og endurskoðun kostnaðaruppgjöra kvikmyndafyrirtækja að mati Ríkisendurskoðunar og þá sérstaklega kostnaðarminni verkefna. Íslenskir og erlendir kvikmyndaframleiðendur fengu endurgreidda rúma 9 milljarða króna úr ríkissjóði á síðustu 18 árum. Ríkisendurskoðun telur að aðkoma skattayfirvalda að endurgreiðslum vegna kvikmyndaframleiðslu hér á landi hafi hinsvegar ekki verið virk né kerfisbundin.
Meiri en helmingur verkefna þurfa ekki að skila endurskoðuðu kostnaðaruppgjöri
Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurgreiðslukerfi kvikmynda en í desember 2018 ákvað ríkisendurskoðandi að hefja stjórnsýsluúttekt á endurgreiðslukerfi kvikmynda eftir að ábending barst um að hugsanlega væri verið að misnota kerfið.
Í niðurstöðum skýrslunnar kemur fram að úttekt Ríkisendurskoðunar á tíu framleiðsluverkefna leiddi ekkert í ljós sem bendir til misnotkunar á endurgreiðslukerfi kvikmynda. Ríkisendurskoðun telur þó að ýmissa breytinga sé þörf og auka þurfi eftirlit með lögmæti kostnaðaruppgjöra kvikmyndaverkefna og þá ekki síst kostnaðarminni verkefna.
Verkefni sem hljóta minna en 20 milljóna króna endurgreiðslu þurfa samkvæmt núgildandi lögum ekki að skila endurskoðuðu kostnaðaruppgjöra. Þau verkefni þurfa eingöngu áritun stjórnenda á ársreikningi eða kostnaðaruppgjöri.
Á tímabilinu 2012 til 2018 hlutu alls 159 verkefni af 257 minna en 20 milljóna endurgreiðslur eða alls 62 prósent þeirra verkefna sem hlutu endurgreiðslur. Endurgreiðslur vegna þeirra verkefna námu alls 1,2 milljörðum. Í skýrslunni segir því að ljós sé að um töluverðar fjárhæðir sé að ræða og því mikilvægt að efla eftirlit með slíkum verkefnum.
Skattayfirvöld ekki verið virk
Enn fremur kemur fram í úttekt Ríkisendurskoðunar að misbrestur hafi verið á skattskilum af verktakagreiðslum erlendra aðila sem komið hafa að framleiðslu kvikmynda eða sjónvarpsefnis hér á landi. Á árunum 2001 til 2018 voru 9,1 milljarðar greiddur úr ríkissjóði til framleiðenda á grundvelli endurgreiðslukerfisins. Þar af 4,7 milljarðar til innlendra framleiðsluverkefna og um 4,5 milljarðar. til erlendra framleiðsluverkefna.
Ríkisendurskoðun telur að til þess að tryggja hagkvæma nýtingu þess fjár sem veitt er til endurgreiðslukerfisins þurfi stjórnvöld að hafa öflugt eftirlit með lögmæti
kostnaðaruppgjöra þeirra verkefna sem sótt er um endurgreiðslu vegna. Í því sambandi sé brýnt
að ganga úr skugga um að einungis sá kostnaður sem staðið hefur verið skil á staðgreiðslu
opinberra gjalda vegna teljist til endurgreiðslustofns
Jafnframt segir í skýrslunni að það veki athygli að aðkoma skattayfirvalda í þessum málaflokki hafi til þessa ekki verið virk og kerfisbundin.
Efla þarf samstarf við ríkisskattstjóra
Niðurstaða Ríkisendurskoðunar er sú að endurskoða þurfi lög og reglugerðir um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Skilgreina þurfi betur hvers kyns kvikmynda- og sjónvarpsverkefni falla undir endurgreiðslukerfið en á undanförnum árum hafi vægi sjónvarpsefnis aukist innan endurgreiðslukerfisins og tilvikum fjölgað þar sem álitamál er hvort efnið falli að markmiðum laganna.
Jafnframt þurfi skýra betur hvaða kostnaðarliðir falla undir endurgreiðslustofn framleiðsluverkefna en til að mynda hefur tíðkast að endurgreiða hlutfall matar- og flutningskostnaðar starfsmanna sem er í andstöðu við rekstrarkostnaðarhugtak tekjuskattslaga.
Auk þess telur Ríkisendurskoðunríka ástæðu til þess að að skilyrða endurgreiðslur við rétt skattskil og efla samstarf við embætti ríkisskattstjóra um endurskoðun kostnaðaruppgjörs þeirra verkefna sem falla undir endurgreiðslukerfið, meðal annars til að sannreyna að greiðsla skatta af ýmsum útgjaldaliðum uppgjöra hafi átt sér stað.
Endurskoðun á lögunum stendur nú yfir
Jafnframt telur Ríkisendurskoðun að kanna mætti kanna hvort umsýsla og þjónusta við nefnd um tímabundnar endurgreiðslur sé betur komið fyrir hjá annarri opinberri stofnun en Kvikmyndamiðstöð Íslands, með Kvikmyndamiðstöðina sem faglegan umsagnaraðila.
Endurskoðun á endurgreiðslukerfinu stendur nú yfir hjá fjármála- og efnahagsráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti en markmiðið er meðal annars að meta hvort kerfið starfi í samræmi við markmið laga nr. 43/1999. Þá er mennta- og menningarmálaráðuneyti að hefja vinnu við mótun heildarstefnu um kvikmyndagerð sem á að gilda fyrir tímabilið 2020 til 2030.