Valitor Holding, dótturfélag Arion banka sem á greiðslumiðlunarfyrirtækið Valitor, er nú metið þá 11,7 milljarða króna í bókum bankans. Það er 4,1 milljarði króna lægri verðmiði en var á fyrirtækinu um síðustu áramót. Þetta kemur fram í uppgjöri Arion banka fyrir þriðja ársfjórðung ársins 2019 sem var birt eftir lokun markaða í gær.
Tekjur Valitor hafa dregist saman um 1.240 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 þegar miðað er við sama tímabil í fyrra, og voru tæplega 3,6 milljarðar króna nú. Það er samdráttur í tekjum um rúman fjórðung á einu ári. Munar þar mestu um að þjónustutekjur drógust saman um 1,2 milljarða króna.
Á sama tíma hefur rekstrarkostnaður aukist úr 5,9 milljörðum króna í tæpleg 7,8 milljarða króna, eða um 31 prósent.
Sex milljarða tap frá byrjun síðasta árs
Tap Valitor á þessu ári kemur í framhaldi af 1,9 milljarða króna tapi í fyrra. Samanlagt tap fyrirtækisins frá byrjun árs 20189 nemur því sex milljörðum króna. Árið 2017 skilaði Valitor 940 milljón króna hagnaði.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, sagði í tilkynningu til Kauphallar Íslands í gær, þar sem fjallað er um umtalsverðar niðurfærslur á virði eigna sem eru til sölu, að í tilfelli Valitor sé ástæðan vegna fjárfestingar í alþjóðlegri starfsemi og „gjaldfærsla kostnaðar vegna skipulagsbreytinga.“
Greiddu háar skaðabætur
Hluti af tapinu í ár er tilkomið vegna þess að Valitor samdi um að greiða atacell og Sunshine Press Productions, félagi tengt Wikileaks, 1,2 milljarða króna fyrr á þessu ári í skaðabætur.
Landsbankinn, sem er í eigu íslenska ríkisins, greiddi alls 426 milljónir króna af af þeim bótum. Ástæða þess að Landsbankinn greiddi hluta skaðabótanna er sú að bankinn átti 38,62 prósent í Valitor þegar broti var gegn ofangreindum félögum. Þegar Landsbankinn seldi Arion banka hlut sinn í Valitor í desember 2014 var kveðið á um það í kaupsamningi að hann myndi halda Arion banka skaðlausum í málinu í hlutfalli við seldan eignarhlut. Því greiddi Landsbankinn Arion banka 426 milljónir króna þegar sátt lá fyrir í málinu, í samræmi við það samkomulag. Valitor, dótturfélag Arion banka, greiddi svo bæturnar.