Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur lagt fram frumvarp sem, verði það að lögum, mun afnema stimpilgjöld af fiskiskipum. Á árunum 2008 til 2017 greiddu sjávarútvegsfyrirtæki rúmlega 1,2 milljarða króna í stimpilgjald vegna fiskiskipa.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa barist hart fyrir því að gjaldið verði afnumið, nú síðast í umsögn um fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp fyrir árið 2020. Þau segja aðgerðina nauðsynlega og löngu tímabæra. Í umsögninni segir meðal annars að það sé mat samtakanna að mikilvægt sé að átta sig á því að skip séu ekkert annað en atvinnutæki þeirra sem þau nota. „Með því að fara fram á háa greiðslu stimpilgjalda vegna skipa sem eru yfir 5 brúttótonnum á sér stað mismunun eftir atvinnugreinum, enda ljóst að aðrir lögaðilar sem notast þurfa við tæki á borð við flugvélar, rútur, vinnuvélar eða önnur stórvirk atvinnutæki er ekki skylt að greiða stimpilgjöld.[...] Jafnframt ber að nefna að fyrirtæki í útgerð sem hafa áhuga á að endurnýja sinn skipakost, þurfa ekki aðeins að greiða 1,6% stimpilgjald heldur verður það 3,2% af verðmæti viðskiptanna sem fer í stimpilgjöld. Þannig þurfa fyrirtækin jafnan að greiða bæði gjaldið við sölu eldra skips og síðan aftur við kaup á nýju skipi og því verður álagningin í raun tvöföld við endurnýjun skipastóls.“
Lögunum síðast breytt 2013
Árið 2013 lagði þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, sami Bjarni Benediktsson og nú situr í ráðuneytinu, fram frumvarp til nýrra laga um stimpilgjald.
Í þeim lögum var þó áfram gert skylt að greiða stimpilgjald af eignayfirfærslu skipa, en nú bara þeim sem voru yfir fimm brúttótonn að þyngd. Í greinargerð með nýja frumvarpinu segir að í lögskýringargögnum gömlu laganna sé ekki að finna sérstakan rökstuðning fyrir því.
„Með vísan til sjónarmiða um jafnræði atvinnugreina er talið rétt að ekki verði lengur innheimt stimpilgjald vegna skjala er varða eignayfirfærslu skipa yfir fimm brúttótonnum. Slík breyting er jafnframt í samræmi við það regluverk sem fyrirfinnst á Norðurlöndunum varðandi stimpilgjöld, en þar takmarkast stimpilgjöld almennt við fasteignaviðskipti. Þá mun slík breyting bæta m.a. rekstrarumhverfi skipa á Íslandi, leiða til sambærilegra rekstrarumhverfis líkt og hjá erlendum samkeppnisaðilum og styðja sérstaklega við íslenskan sjávarútveg sem er í mikilli alþjóðlegri samkeppni,“ segir enn fremur í greinargerðinni.