Erlendum ríkisborgurum sem eru búsettir á Íslandi fjölgaði um 1.920 á þriðja ársfjórðungi ársins 2019. Þeir voru alls 48.640 í lok september og hafa aldrei verið fleiri. Íbúum landsins fjölgaði um 2.470 á ársfjórðungnum og því var 78 prósent fjölgunar á Íslandi frá júlíbyrjun og út september vegna komu erlendra ríkisborgara hingað til lands.
Þetta kemur fram í nýjum mannfjöldatölum Hagstofu Íslands.
Því virðist ekkert lát ætla að verða á fjölgun erlendra ríkisborgara, en þeir eru nú 13,4 prósent íbúa landsins, þrátt fyrir áföll í efnahagslífinu tengd gjaldþroti WOW air og væntan 0,2 prósent samdrátt í þjóðarframleiðslu á árinu. Í ljósi þess að ný þjóðhagsspá Hagstofunnar gerir ráð fyrir hagvexti strax á næsta ári, og að hann haldist árlega út árið 2025 hið minnsta.
Hægt á fjölgun en samt fjölgar
Það hefur hins vegar hægt á fjölgun erlendra ríkisborgara hérlendis á þessu ári. Alls hefur þeim fjölgað um 2.970 á fyrstu níu mánuðum ársins 2019.
Á árunum 2017 og 2018 átti sér stað metfjölgun erlendra ríkisborgara sem koma hingað til lands til að búa hér. Á því tímabili fjölgaði þeim um alls 13.930, eða um tæp 46 prósent.
Rúmlega fjórði hver í Reykjanesbæ útlendingur
Flestir erlendu ríkisborgaranna búa í höfuðborginni Reykjavík, eða 20. 570. Það þýðir að 15,7 prósent íbúa hennar eru erlendir ríkisborgarar. Til samanburðar búa 800 erlendir ríkisborgarar í Garðabæ, sem þýðir að 4,7 prósent íbúa þess sveitarfélags tilheyra þeim hópi.
Á meðal stærri sveitarfélaga er hlutfall erlendra íbúa hæst í Reykjanesbæ, vegna nábýlisins við Keflavíkurflugvöll og alla þá ferðaþjónustutengdu starfsemi sem honum tengist. Þar búa nú 4.960 erlendir ríkisborgarar sem þýðir að 25,6 prósent þeirra 19.380 manns sem búa í Reykjanesbæ eru erlendir ríkisborgarar.
Flestir erlendir ríkisborgarar búsettir hér á landi eru frá Póllandi eða 20.370 og 4.542 einstaklingar eru með litháískt ríkisfang.