„Fólk sem sat þennan fund var mjög slegið yfir yfirlýsingum ráðuneytisstjóra ráðuneytis vinnumarkaðar og málefna innflytjenda. Þetta lýsir gríðarlegum fordómum gagnvart innflytjendum á vinnumarkaði og gríðarlegu áhugaleysi ráðuneytis og ráðuneytisstjóra þess ráðuneytis á að sinna málefnum þessa hóps.“
Þetta sagði Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag og vísaði þar til ummæla ráðuneytisstjóra félagsmálaráðuneytisins í pallborði um málefni erlends starfsfólks á Íslandi á Þjóðarspegli Háskóla Íslands í síðustu viku. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, átti að taka þátt í pallborðinu en forfallaðist vegna anna en sendi í staðinn ráðuneytisstjóra sinn Gissur Pétursson.
Ummæli ráðuneytisstjóra þvert á framkvæmdaáætlun stjórnvalda
Þorsteinn sagði að ummæli Gissurar í pallborði hefðu verið ansi sláandi. Hann sagði að Gissur hefði meðal annars sagt að hann teldi ekki ástæðu til að fræða innflytjendur um réttindi sín á vinnumarkaði heldur væri það á ábyrgð innflytjenda að afla sér upplýsinga. Auk þess hefði hann sagt að það þýddi ekkert að styrkja íslenskukennslu þar sem innflytjendur nenntu ekki að læra tungumálið og enn fremur hefði hann sagt hversu gott það væri að losna við fólk af íslenskum vinnumarkaði í þessu samhengi.
Þorsteinn sagði að þessi ummæli gengu þvert á framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sem samþykkt var á Alþingi fyrir þremur árum síðan. Hann spurði því ráðherra hvort þetta væri stefna ráðherra og stefna stjórnvalda í málefnum innflytjenda.
Ásmundur Einar svaraði því næst Þorsteini og sagði að auðvitað væri unnið eftir framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda og að engin stefnubreyting hefði orðið þar á.
Hann sagðist jafnframt hafa heyrt fregnir af þessum panel og þeim umræðum sem áttu sér stað þar. Auk þess hefði hann heyrt af pistli sem ritaður var af Sabine Leskopf, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, sem birtur var hér á Kjarnanum í síðustu viku, en að hann hefði ekki haft tækifæri til að setja sig ofan í þann pistil.
Ekki í stakk búinn til að svara fyrir ummælin
Ásmundur Einar sagði jafnframt að ríkisstjórnin hefði gert margt gott þegar kæmi að þessum málaflokki og að auknar fjárveitingar væru væntanlegar á næstu árum. Hann bað Þorstein um að benda á aðgerðir ríkisstjórnarinnar þar sem skert hefði verið á réttindum innflytjenda eða ekki gengið nógu langt í þjónustu við innflytjendur.
Þá sagði Þorsteinn að það væri alveg rétt að aukið hefði verið fjármagn til kvótaflóttamanna en að þetta mál varðaði allan þann stóra hóp innflytjenda sem vinnur hér á landi. Hann sagði að tryggja þyrfti réttarstöðu þessa hóps og sýna því raunverulegan áhuga að taka á kerfisbundnum brotum á þeim á vinnumarkaði.
Enn fremur spurði Þorsteinn ráðherra hvort að honum hugðist að leiðrétti þessi ummæli ráðuneytisstjóra eða biðjast afsökunar á þeim.
Ásmundur Einar sagði að hann væri ekki í stakk búinn til að svara fyrir þessi ummæli þar sem hann hefði ekki séð upptökur eða útprentanir af þessum pallborðsumræðum en ítrekaði að stefna stjórnvalda í málefnum innflytjenda væri algjörlega óbreytt.