Ríkustu fjölskyldur landsins, sem mynda 0,1 prósent tekjuhæsta hlutfall landsmanna, hafa aukið það magn milljarða króna sem þær eiga í eigin fé í sameiningu um 105 milljarð króna frá árslokum 2011 og fram til síðustu áramóta. Þá átti hópurinn, sem samanstóð þá af um 190 fjölskyldum, 155 milljarða króna. Í lok árs 2018 tilheyrðu 238 fjölskyldur ríkustu 0,1 prósent þjóðarinnar og áttu samanlagt 260 milljarða króna í eigin fé.
Rúmur helmingur þess viðbótar eiginfjár sem þessar fjölskyldur hafa eignast á tímabilinu féll til á árunum 2017 og 2018, þegar eigið fé þeirra jókst um 59 milljarða króna. Meðaleign hverrar fjölskyldu í efsta 0,1 prósent lagi samfélagsins hefur farið úr því að vera 922 milljónir króna í árslok 2016 í að vera 1,1 milljarður króna um síðustu áramót, að teknu tilliti til breytinga á fjölda fjölskyldna í tekjubilinu.
Alls hefur 3,3 prósent af þeim 3.179 milljörðum króna sem orðið hafa til í íslensku hagkerfi á frá árinu 2010 farið til 0,1 prósent ríkustu fjölskyldnanna hverju sinni. Á árunum 2017 og 2018 var það hlutfall hins vegar hærra, eða 4,2 prósent.
Þetta má lesa út úr svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, um eignir og skuldir ríkustu Íslendinganna sem svarað var á þingi fyrir rúmri viku.
Sama þróun hjá efsta prósentinu
Þegar horft er á ríkasta eitt prósent landsmanna hefur auður þess, samkvæmt skattframtölum, aukist um 353 milljarða króna frá árslokum 2010 og fram að síðustu áramótum, þegar hann var 802 milljarðar króna. Alls voru 2.380 fjölskyldur í því lagi í lok þess tímabils.
Því liggur fyrir að efnuðustu Íslendingarnir eru að taka til sín stærra hlutfall af nýjum auð á síðustu tveimur árum en þeir hafa gert að meðaltali síðastliðin níu ár.
Fá þorra fjármagnstekna og eigið fé vanmetið
Nær öruggt er að hópurinn á þó meiri eignir en tölurnar gefa til kynna. Kjarninn greindi frá því á þriðjudag að ríkasta eitt prósent landsmanna þéni um 35 prósent allra fjármagnstekna í landinu og að rúmur helmingur slíkra tekna fari til ríkustu fimm prósent landsmanna. Fjármagnstekjur eru vaxtatekjur, arður, söluhagnaður og leigutekjur utan rekstrar. Þ.e. tekjur sem viðkomandi hafa af eignum og fjárfestingum, en ekki launatekjur.
Öll verðbréfaeign (hlutabréf í innlendum og erlendum hlutafélögum, eignarskattsfrjáls verðbréf, stofnsjóðseign og önnur verðbréf og kröfur) er metin á nafnvirði í tölunum, en ekki markaðsvirði. Því blasir við að eigið fé þeirra sem eiga þessar eignir er vanmetið, og fjármagnstekjuskiptingin bendir sannarlega til þess að lítill hópur landsmanna eigi stóran hluta þessara eigna.
Eignarhluti landsmanna í lífeyrissjóðum eru ekki taldar með í ofangreindum tölum, en samanlagt áttu þeir sjóðir 4.797 milljarðar króna í lok ágúst síðastliðins og eru langstærstu fjárfestar í landinu.