Ísland hefur verið sett á lista þróunarbanka Kýpur (Cyprus Development Bank eða CDB) yfir lönd sem ekki er heimilt að opna á millifærslur af neinum toga. Íslenskum viðskiptavinum bankans var nýverið neitað um millifærslu umtalsverðrar fjárhæðar á bankareikninga hérlendis vegna breytingar á reglum um þá viðskiptavini sem bankinn samþykkir sem sína, og tók gildi í nóvember. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir einnig að mikilla gagna hafi verið krafist frá CDB af þeim Íslendingum sem viljað hafa millifæra fjármuni frá bankanum undanfarnar vikur og vottana frá „mörgum aðilum til þess uppfylla þau skilyrði sem bankinn krefst núorðið“. Frá því að nóvember hófst hafi millifærslurnar verið stöðvaðar að öllu leyti.
Ísland sett á gráan lista og úttekt sýndi brotalamir
Ísland var sett á gráan lista Financial Action Task Force (FATF) 18. október síðastliðinn vegna ónógra varna gegn peningaþvætti. Kýpur eru ekki aðili að samtökunum en það þýðir þó ekki að vera Íslendingar geti ekki orðið fyrir áhrifum í bankaviðskiptum þar í landi.
Það kom til að mynda vel í ljós þegar Fjármálaeftirlitiðhóf að gera úttektir á á vörnum bankað haustið 2018. Slík athugun á Arion banka hófst í október 2018 og leiddi til þess að eftirlitið gerði margháttaðar athugasemdir við brotalamir hjá bankanum í janúar 2019. Í athugun eftirlitsins á Arion banka kom meðal annars fram að bankinn hefði ekki metið með sjálfstæðum hætti hvort upplýsingar um raunverulega eigendur viðskiptavina væru réttar og fullnægjandi og að þær upplýsingar hafi ekki verið uppfærðar með reglulegum hætti, líkt og lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka gerðu ráð fyrir. Fjármálaeftirlitið hefur ekki viljað upplýsa, né hefur það birt niðurstöður úr, hvaða aðrar fjármálastofnanir sambærilegar úttektir hafa verið gerðar hjá.
9. ágúst síðastliðinn greindi Kjarninn frá því að eftirlitið vild ekki svara því hvort yfir standi athugun á aðgerðum Landsbankans, Íslandsbanka og Kviku banka gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Það sagðist þó hafa framkvæmt tæplega 20 athuganir hjá tilkynningarskyldum aðilum sem lúta eftirliti stofnunarinnar frá árinu 2017 og þá stæðu yfir þrjár slíkar athuganir.
Össur fékk fyrirspurn
Þótt að FATF hafi ekki kallað eftir því sérstaklega að sérstakar og umfangsmeiri áreiðanleikakannanir yrðu framkvæmdar á íslenskum viðskiptavinum alþjóðlega á meðan að Ísland væri á gráa listanum þá er vera Íslands á honum mikill orðsporshnekkir, og getur leitt til þess að fyrirtæki taki slíkt upp sjálf. Það hefur CDB á Kýpur nú gert.
Það er í takti við það sem Áslaug Jósepsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu almanna- og réttaröryggis dómsmálaráðuneytisins, sagði að gæti gerst þegar hún ræddi þessi mál á fundi sem Samtök verslunar og þjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök iðnaðarins stóðu fyrir í lok október um peningaþvætti.
Sama dag hafði Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, sagt við Kjarnann að fyrirtækið hefði fengið fyrirspurn um veru Íslands á gráa listanum þegar það var í viðræðum um fjármögnun skömmu áður. Vera Íslands á listanum hefði þó ekki áhrif á starfsemi eða fjármögnun Össurar þar sem að hún fari fram í gegnum erlend dótturfélög. Það væri hins vegar mjög alvarlegt mál að Ísland sé á lista sem þessum að mati Jóns.