„Við munum taka efni þessa þáttar til skoðunar og metum það sem þarna kemur fram ásamt öðrum gögnum sem embættið hefur aflað sér til þess að taka afstöðu til þess sem verður gert í framhaldinu.“
Þetta segir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við Kjarnann aðspurður um hvort að embættið sé með meintar múturgreiðslur og ýmis önnur meint lögbrot, eins peningaþvætti og skattsvik, Samherja í Namibíu og Noregi til skoðunar.
Heimildir Kjarnans herma að Jóhannes Stefánsson, sem var verkefnastjóri Samherja í Namibíu fram til ársins 2016, og steig fram í Kveik-þætti kvöldsins, hafi rætt við starfsmenn héraðssaksóknara í dag.
Í þætti Kveiks kom meðal annars fram að vísbendingar séu um að greiðslur upp á að minnsta kosti 1,4 milljarða króna frá Samherja til hóps sem inniheldur meðal annars tvo ráðherra í Namibíu, séu mútugreiðslur og að viðskipti fyrirtækisins í Afríkulandinu séu skýr dæmi um spillingu. Umfjöllunin var unnin í samstarfi Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks.
Jóhannes gegst við því í þættinum að hafa brotið lög fyrir hönd Samherja þegar fyrirtækið náði í umtalsverðan kvóta í Namibíu. Þar kom einnig fram að Jóhannes hefði gefið sig fram við yfirvöld í Namibíu, hefði fengið lagalega stöðu uppljóstrara og aðstoðaði nú við rannsókn þeirra á starfsháttum Samherja.
Jóhannes var sérstaklega nefndur á nafn í yfirlýsingu sem Samherji sendi frá sér í gær vegna yfirvofandi umfjöllunar um starfshætti fyrirtækisins og sagt að honum hefði verið sagt upp störfum hjá Samherja árið 2016 vegna „óásættanlegrar framgöngu hans og hegðunar“. Það hafi gerst í kjölfar þess að Samherji hefði orðið „þess áskynja í ársbyrjun 2016 að ekki væri allt með felldu í rekstrinum í Namibíu“ og sent íslenskan fyrrverandi rannsóknarlögreglumann til landsins til að rannsaka málið.