Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um vernd uppljóstrara. Lögin gilda um starfsmenn sem greina í góðri trú frá upplýsingum eða miðla gögnum um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitenda þeirra, hvort sem þeir starfa hjá hinu opinbera eða á einkamarkaði.
Markmið laganna er að stuðla að því að upplýst verði um lögbrot og aðra ámælisverða háttsemi og þannig dregið úr slíku hátterni. Ytri uppljóstrun er að jafnaði ekki heimil nema innri uppljóstrun hafi fyrst verið reynd til þrautar.
Heimilt að miðla upplýsingum í góðri trú
Innri uppljóstrun er skilgreind þannig í frumvarpinu að þrátt fyrir fyrirmæli laga, siðareglna eða samninga um þagnar- eða trúnaðarskyldu sé starfsmanni sem býr yfir upplýsingum eða gögnum um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitanda hans heimilt að miðla slíkum upplýsingum og gögnum í góðri trú til aðila sem stuðlað getur að því að látið verði af eða brugðist við hinni ólögmætu eða ámælisverðu háttsemi.
Starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga sé skylt að miðla upplýsingum og gögnum samkvæmt þessu. Sama eigi við um starfsmenn lögaðila sem eru að 51 prósent hluta eða meira í eigu hins opinbera.
Miðlunin geti meðal annars verið til næsta yfirmanns starfsmanns og sé móttakanda upplýsinganna eða gagnanna skylt að stuðla að því að látið verði af hinni ólögmætu eða ámælisverðu háttsemi eða brugðist á annan hátt við henni. Hann skuli greina starfsmanninum frá því hvort upplýsingarnar hafi orðið honum tilefni til athafna og þá hverra.
Miðlun upplýsinga geti einnig verið til lögregluyfirvalda eða annarra opinberra eftirlitsaðila sem við eiga, til að mynda umboðsmanns Alþingis, ríkisendurskoðanda og Vinnueftirlits ríkisins.
Móttakandi upplýsinga eða gagna skuli gæta leyndar um persónuupplýsingar sem honum berast um þann sem miðlar upplýsingum eða gögnum nema hinn síðarnefndi veiti afdráttarlaust samþykki sitt.
Annað skref: Að miðla upplýsingum til utanaðkomandi aðila
Ytri uppljóstrun er skilgreind á þann veg að þegar starfsmaður hefur miðlað upplýsingum eða gögnum án þess að það hafi leitt til fullnægjandi viðbragða þá sé honum heimilt í góðri trú að miðla umræddum upplýsingum eða gögnum til utanaðkomandi aðila, þar á meðal fjölmiðla, svo fremi sem starfsmaðurinn hafi réttmæta ástæðu til að ætla að um háttsemi sé að ræða sem getur varðað fangelsisrefsingu.
Slík miðlun teljist einnig heimil í algjörum undantekningartilvikum þegar miðlun kemur af gildum ástæðum ekki til greina. Skilyrði sé að miðlunin teljist í þágu svo brýnna almannahagsmuna að hagsmunir vinnuveitanda eða annarra verði að víkja fyrir hagsmunum af því að upplýsingum sé miðlað til utanaðkomandi aðila, svo sem til að vernda öryggi ríkisins eða hagsmuni ríkisins á sviði varnarmála, efnahagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins, heilsu manna eða umhverfið.
Móttakandi upplýsinga eða gagna skuli enn fremur líkt og með innri uppljóstrun gæta leyndar um persónuupplýsingar sem honum berast um þann sem miðlar upplýsingum eða gögnum nema viðkomandi veiti afdráttarlaust samþykki sitt.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að mikilvægt sé að tryggja að þeir sem hafa í hyggju að stíga fram og greina frá brotum í starfsemi vinnuveitenda sinna, hvort sem er hins opinbera eða einkaaðila, njóti gagnsærrar verndar sem samræmist ábendingum alþjóðastofnana. Slíkt verði ekki gert nema með lagasetningu.
Sönnunarbyrði lögð á atvinnurekanda
Í frumvarpinu er sem sagt kveðið á um að miðlun upplýsinga eða gagna, að fullnægðum skilyrðum frumvarpsins, teljist ekki brot á þagnar- eða trúnaðarskyldu viðkomandi og leggi hvorki refsiné skaðabótabyrgð á hann og geti ekki heldur leitt til stjórnsýsluviðurlaga eða íþyngjandi úrræða að starfsmannarétti.
„Þá er lagt sérstakt bann við því að láta hvern þann sæta óréttlátri meðferð sem miðlað hefur upplýsingum eða gögnum samkvæmt framansögðu. Lögð er sönnunarbyrði á atvinnurekanda á þann hátt að ef líkur eru leiddar að óréttlátri meðferð skal hann sýna fram á að sú sé ekki raunin og greiða skaðabætur ef það tekst ekki,“ segir í greingerðinni með frumvarpinu.
Loks er mælt fyrir um að veita skuli starfsmanninum gjafsókn komi til ágreinings fyrir dómi um stöðu starfsmanns með tilliti til framangreindrar verndar. Þá er í frumvarpinu lagt til að í fyrirtækjum eða öðrum vinnustöðum þar sem eru 50 starfsmenn eða fleiri skuli atvinnurekandi í samráði við starfsmenn setja reglur um ferli við innri uppljóstrun starfsmanna um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi.
Loks er í frumvarpinu lagt til að lögfestar verði heimildir til að greina ríkisendurskoðanda og Vinnueftirliti ríkisins frá upplýsingum og afhenda gögn, sambærilegar þeirri heimild sem nú er að finna í lögum um umboðsmann Alþingis.