Í ársreikningnum þeirra tveggja félaga sem mynda Samherja-samstæðuna á Íslandi, Samherja hf. og Samherja Holding ehf., fyrir árið 2018 er fjallað um það sem er kallað „ófjárhagsleg upplýsingagjöf“.
Þar segir meðal annars að Samherjasamstæðan virði „almenn mannréttindi, rétt allra til félagafrelsis og kjarasamninga. Áhersla er lögð á að verktakar og undirverktakar fari eftir gildandi lögum er varðar alla sína starfsmenn, hvort sem það eru þeirra launþegar eða eigin undirverktakar.“ Samstæðan hafi þó ekki sett sér skrifleg viðmið um siðferði, spillingu, mannréttindi eða mútur en að vinna við það hafi verið í gangi og ljúki væntanlega á árinu 2019.
Í Kveiksþætti sem sýndur var á RÚV í kvöld kom fram að vísbendingar séu um að greiðslur upp á að minnsta kosti 1,4 milljarða króna frá Samherja til hóps sem inniheldur meðal annars tvo ráðherra í Namibíu, séu mútugreiðslur og að viðskipti fyrirtækisins í Afríkulandinu séu skýr dæmi um spillingu.
Í ársreikningunum er auk þess fjallað um að félög innan samstæðunnar hafi undanfarið unnið að margvíslegum stefnum og áætlunum sem eigi það sammerkt að styðja beint eða óbeint hver við aðra. „ Má þar nefna innleiðingu á viðbragðsáætlun gegn einelti, kynferðislegu og kynbundnu áreiti og ofbeldi, mannréttindastefnu, stefnu í vinnuverndar- og öryggismálum, jafnréttisáætlun, persónuverndarstefnu og fleira. Vinna við framangreindar stefnur og áætlanir er vel á veg komin og er stefnt að því að þær verði innleiddar á árinu 2019.“
Þar kemur fram að vinna standi yfir við gerð mannréttindastefnu Samherja og Samherja Holding sem miði að því að tryggja að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóti mannréttinda án tillits til kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. „Engum skal haldið í nauðungarvinnu eða barnaþrælkun og hafnar Samherji hvers kyns þrældómi, nauðungarvinnu og mansali.“
Samherjasamstæðan segist telja að samfélagsleg ábyrgð sé ekki einungis ábyrgð heldur að í henni felist einnig tækifæri til að bæta velferð nærsamfélagsins. „Samstæðan leggur sitt af mörkum til að efla komandi kynslóðir og stuðla að framförum í samfélaginu og hefur Samherji veitt styrki til ýmissa samfélagsverkefna.“