Sjávarútvegsrisinn er þekktastur fyrir umfang sitt í þeim geira, enda stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins. Samherja-samstæðan á alls 7,1 prósent af úthlutuðum kvóta hérlendis beint. Síldarvinnslan heldur svo á 5,3 prósent allra aflaheimilda, en hún er í 44,6 prósent eigu Samherja auk þess sem Kaldbakur, félag í eigu Samherja, á 15 prósent hlut í öðru félagi sem á 5,3 prósent hlut í Síldarvinnslunni.
Bergur-Huginn er síðan með 2,3 prósent kvótans en það er að öllu leyti í eigu Síldarvinnslunnar. Þá er ótalið Útgerðarfélag Akureyringa, sem heldur á 1,3 prósent kvótans, og er að öllu leyti í eigu Samherja. Samanlagt er aflahlutdeild þessara félaga 16 prósent. Auk þess á Samherji vitanlega umfangsmikla sjávarútvegsstarfsemi í Evrópu og Afríku.
Samherja-samstæðan ,sem samanstendur af tveimur félögum, átti eigið fé upp á 110,7 milljarða króna í lok síðasta árs. Hagnaður Samherja vegna ársins 2018 nam samtals um 11,9 milljörðum króna. Hagnaður Samherjasamstæðunnar hefur þar með numið yfir 112 milljörðum króna á átta árum, frá árinu 2011 og fram til loka síðasta árs. Hagnaðurinn dróst lítillega saman milli áranna 2017 og 2018, en hann var 14,4 milljarðar króna á fyrra árinu.
Í Kveiksþætti sem sýndur var á RÚV í kvöld kom fram að vísbendingar séu um að greiðslur upp á að minnsta kosti 1,4 milljarða króna frá Samherja til hóps sem inniheldur meðal annars tvo ráðherra í Namibíu, séu mútugreiðslur og að viðskipti fyrirtækisins í Afríkulandinu séu skýr dæmi um spillingu.
Eiga í óskyldum greinum
Samherji hf. keypti stóran hlut í Olís fyrir nokkrum árum. Það félag rann síðan saman við smásölurisann Haga og í kjölfarið eignaðist Samherji alls 9,26 prósent hlut í Högum. Í síðustu viku var greint frá því að Samherji hefði selt helming hlutabréfa sinna í Högum og að eftir viðskiptin standi eignarhlutur samstæðunnar í 4,22 prósentum.
Samherji Holding er líka stærsti einstaki eigandi hlutabréfa í Eimskip, með 27,1 prósent eignarhlut. Baldvin Þorsteinsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá samstæðunni, er stjórnarformaður Eimskips og í janúar í ár var Vilhelm Már Þorsteinsson, frændi hans, ráðinn sem forstjóri skipafélagsins.
Helstu eigendur og stjórnendur Samherja eru frændurnir, forstjórinn Þorsteinn Már Baldvinsson og útgerðarstjórinn Kristján Vilhelmsson. Þeir eiga samtals 65,4 prósent í samstæðunni. Helga S. Guðmundsdóttir, fyrrverandi eiginkona Þorsteins Más, á 21,3 prósent. Til viðbótar á félagið Bliki ehf. 11,7 prósent hlut í Samherjasamstæðunni. FramInvest Sp/f er skráð fyrir 27,5 prósenta hlut í Blika. Það félag er skráð í Færeyjum. Þorsteinn Már er helsti skráði stjórnandi þess félags.
Auk þess er SVN eignafélag, félag í eigu Síldarvinnslunnar, lang stærsti einkafjárfestirinn í Sjóvá með 13,97 prósent hlut. Samherji á 44,6 prósent í eigu Samherja auk þess sem Kaldbakur, félag í eigu Samherja, á 15 prósent hlut í öðru félagi sem á 5,3 prósent hlut í Síldarvinnslunni. Þorsteinn Már er stjórnarformaður Síldarvinnslunnar.
Þá er Samherji líka stór eigandi í Jarðborunum í gegnum Kaldbak ehf.