Á næsta ári tekur Ísland á móti 85 kvótaflóttamönnum. Um er að ræða fjölmennustu móttöku flóttafólks frá því að íslensk stjórnvöld hófu að taka á móti flóttafólki í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Í fyrra höfðu íslensk stjórnvöld tekið á móti 695 kvótaflóttamönnum á 62 árum. Tekið verður á móti sýrlensku flóttafólki sem staðsett er í Líbanon, flóttafólki frá Keníu og afgönsku flóttafólki frá Íran.
695 kvótaflóttamenn á 62 árum
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) skilgreinir nú 19,9 milljónir einstaklinga sem flóttafólk og áætlar stofnunin að af þeim séu 1,44 milljónir í brýnni þörf fyrir að komast í öruggt skjól sem kvótaflóttafólk. Eingöngu 4 prósent af þeim einstaklingum komust í öruggt skjól á síðasta ári.
Ríkisstjórnin samþykkti í síðustu viku tillögu flóttamannanefndar um að Ísland taki á móti 85 einstaklingum í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Í fréttatilkynningu félagsmálaráðuneytisins segir að þetta sé í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem kveður á um að Íslandi taki á móti fleira flóttafólki.
Árið 2018 hafði Ísland tekið á móti 695 kvótaflóttamönnum á 62 árum. Íslensk stjórnvöld hafa þó eflt móttöku flóttafólks frá árinu 2015 en frá þeim tíma hafa þau tekið á móti 247 einstaklingum. Meiri hlutinn kom frá Sýrlandi en einnig frá Írak, Úganda, Kongó, Simbabve, Rúanda, Súdan og Kamerún.
Flóttafólk frá Sýrlandi, Keníu og Afganistan
Í samræmi við tillögur Flóttamannastofnunarinnar var ákveðið að tekið yrði á móti einstaklingum frá þremur svæðum. Tekið verður á móti sýrlensku flóttafólki sem er í Líbanon en Sýrlendingar eru enn fjölmennasta þjóðin sem hefur þörf fyrir vernd. Staða Sýrlendinga í Líbanon fer síversnandi. Má þar nefna að um 55 prósent barna hafa ekki aðgang að formlegri menntun. Þar af hafa 40 prósent engan aðgang að menntun og innan við 5 prósent barna á aldrinum 15 til 18 ára hafa möguleika á menntun.
Auk þess verður tekið á móti flóttafólki sem er í Keníu. Flóttamannastofnun áætlar að 45 þúsund manns séu í brýnni þörf fyrir að komast sem kvótaflóttafólk frá Keníu á þessu ári. Stofnunin hefur skilgreint fjóra hópa sem eru sérlega viðkvæmir. Það eru hinsegin flóttafólk, flóttafólk frá Suður-Súdan, flóttafólk sem hefur tekið þátt í stjórnmálum, mannréttindabaráttu og blaðamennsku og flóttafólk frá Sómalíu sem hefur sértækar þarfir.
Þá verður einnig tekið á móti afgönsku flóttafólki sem er í Íran. Áætlað er að 2,6 miljónir flóttafólks séu Afganar en átök í Afganistan hafa staðið yfir í langan tíma og því hafa margir dvalið langtímum saman í flóttamannabúðum. Afganskar konur og stúlkur eru í sérlega viðkvæmri stöðu vegna kynbundins ofbeldis, þvingaðra hjónabanda og annarra hefða sem tengjast uppruna þeirra, kyni og stöðu.