Sjö þingmenn úr fjórum flokkum hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að sjá til þess að komið verði á fót samstarfsvettvangi sem miði að því að auka þátttöku almennings í kolefnisbindingu með landgræðslu og gera þannig þjóðarátak í landgræðslu. Þingmennirnir vilja að þessum samstarfsvettvangi verði komið á fyrir lok árs 2020.
Fáir þjóðir jafn gott tækifæri til kolefnisbindingar í gróðri
Markmið tillögunnar er að auka kolefnisbindingu, koma í veg fyrir jarðvegsrof og græða upp örfoka land með aukinni þátttöku almennings í landgræðslu. Í þingsályktunartillögunni segir að jarðvegur sé mikilvæg auðlind enda sé hann undirstaða mestallrar matvælaframleiðslu heimsins.
Jarðvegseyðing sé ein mesta ógn mannkyns og að eyðing gróðurs og jarðvegs hafo um langa hríð verið eitt helsta umhverfisvandamálið á Íslandi.
„Flutningsmenn leggja því til að farið verði í þjóðarátak í landgræðslu enda hafi fáar þjóðir hafa eins góð tækifæri og Íslendingar til að draga úr losun vegna landnotkunar og efla kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi,“ segir í tillögunni.
Þingmennirnir leggja því til að settur verði á fót samstarfsvettvangur stjórnvalda, Landgræðslunnar, bænda, atvinnulífs og almennings til að auka þáttöku almennings í kolefnisjöfnun. Lagt er til að haft verði til fyrirmyndar átakið Bændur græða landið en það er samstarfsverkefni bænda og Landgræðslunnar sem starfrækt hefur verið frá árinu 1990 um uppgræðslu heimalanda
Mörg hundruð einstaklingar kolefnisjafnað sig í ár
Æ fleiri einstaklingar og fyrirtæki hafa kolefnisjafnað viðskipti sín á undanförnum misserum. Kolefnisjöfnun fellst í því að reikna út hversu mikið einstaklingur, fyrirtæki eða stofnun menga mikið, til dæmis hversu mikil losun koltvísýrings á sér stað við flug eða akstur. Einstaklingurinn, fyrirtækið eða stofnunin greiðir fyrirtæki eða sjóði fyrir að planta trjám eða endurheimta votlendi sem í staðinn bindur sama magn af kolefni.
Tvö fyrirtæki og sjóðir bjóða upp á kolefnisjöfnun á Íslandi, það eru Votlendissjóður og Kolviður. Í sumar höfðu 300 einstaklingar kolefnisjafnað sig það sem af er ári hjá Kolviði og 96 einstaklingar hjá Votlendissjóði.
„Þátttaka atvinnulífsins í verkefninu gæti falist í því að bjóða upp á kolefnisjöfnun viðskipta með landgræðslu. Þannig yrði þátttaka almennings tvíþætt, annars vegar með beinni þátttöku í landgræðslu undir leiðsögn Landgræðslunnar, hins vegar með kolefnisjöfnun viðskipta sinna,“ segir í þingsályktunartillögunni.