Gengi bréfa í Eimskipum lækkaði um 4,6 prósent á aðalmarkaði Kauphallar Íslands í dag. Samherji, sem í gær var umfjöllunarefni opinberunar um mútugreiðslur í Namibíu, er stærsti einstaki eigandi Eimskipa með 27,1 prósent eignarhlut. Ekkert félag lækkaði meira en Eimskip í viðskiptum dagsins.
Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, og framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá fyrirtækinu, er stjórnarformaður Eimskips og í janúar í ár var Vilhelm Már Þorsteinsson, frændi þeirra, ráðinn sem forstjóri skipafélagsins.
Samherji hf. keypti stóran hlut í Olís fyrir nokkrum árum. Það félag rann síðan saman við smásölurisann Haga og í kjölfarið eignaðist Samherji alls 9,26 prósent hlut í Högum. Fyrir skemmstu var greint frá því að Samherji hefði selt helming hlutabréfa sinna í Högum og að eftir viðskiptin standi eignarhlutur samstæðunnar í 4,22 prósentum. Hlutabréf í Högum lækkuðu í dag um 2,36 prósent. Einungis Eimskip og Arion banki, sem lækkaði um 2,43 prósent, lækkuðu meira en Hagar í dag.
Í umfjölluninni kom einnig fram að rökstuddur grunur sé um stórfellda skattasniðgöngu Samherja við að koma ágóðanum af þeim viðskiptum sem fyrirtækið stundaði þar undan og til skattaskjóla. Þá liggur fyrir að norski bankinn DNB, sem er að hluta til í eigu norska ríkisins, stöðvaði viðskipti við félög tengd Samherja á Kýpur og Marshall-eyjum vegna þess að reglur um varnir gegn peningaþvætti voru ekki uppfyllt. Þau mál eru til skoðunar hjá norsku efnahagsbrotadeildinni og deildar embættis héraðssaksóknara þar í landi, samkvæmt Stundinni.