Bernhardt Esau, sjávarútvegsráðherra Namibíu, og Sacky Shanghala, dómsmálaráðherra landsins, hafa báðir sagt af sér embætti.
Það gerist í kjölfar þess að Hage Geingob, forseti Namibíu, lýsti því yfir að þeir þyrftu að hverfa úr ríkisstjórninni og að hann ætlaði sér að reka þá úr henni. Frá þessu er greint á namibíska fréttamiðlinum Namibian Sun.
BREAKING: Justice minister Sacky Shanghala and fisheries minister Bernhardt Esau have resigned from their Cabinet positions, amid a storm of an international fishing bribery scandal. President Hage Geingob had intended to fire the pair, but the two men have resigned immediately. pic.twitter.com/AI0ewkzbk8
— Namibian Sun (@namibiansun) November 13, 2019
Fyrr í dag var greint frá því að Geingob væri kominn með nóg af ásökunum um spillingu á hendur ráðherrunum tveimur og að þeir yrðu að víkja úr ríkisstjórn.
Í sérstökum tvöföldum Kveiksþætti sem sýndur var á RÚV í gærkvöld kom fram að vísbendingar væru um að þarna væri um mútugreiðslur að ræða til að komast yfir kvóta í landinu á sem ódýrastan hátt. Umfjöllunin var unnin í samstarfi Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks.
Þar sagði einnig að starfshættir Samherja í Namibíu, og þeirra sem fyrirtækið á að hafa greitt mútur til, hefðu verið til rannsóknar hjá þremur eftirlitsstofnunum í landinu, meðal annars spillingarlögreglunni þar. Auk þess eru yfirvöld á Íslandi og í Noregi meðvituð um málið.
Umfjöllunin er byggð á þúsundum skjala og tölvupóstsamskipta starfsmanna Samherja þar sem starfsemi fyrirtækisins, eins þess stærsta á Íslandi, í Namibíu síðastliðinn tæpan áratug er til umræðu. Gögnunum var lekið til Wikileaks og Kveikur hefur, ásamt Stundinni, unnið ítarlega umfjöllun úr þeim.
Auk þess var í Kveik birt viðtal við Jóhannes Stefánsson, sem var verkefnastjóri Samherja í Namibíu fram á árið 2016, þar sem hann viðurkenndi að hafa brotið lög fyrir hönd Samherja þegar fyrirtækið náði í umtalsverðan kvóta í landinu. Þar kom einnig fram að Jóhannes hefði gefið sig fram við yfirvöld í Namibíu, hefði fengið lagalega stöðu uppljóstrara og aðstoðaði nú við rannsókn þeirra á starfsháttum Samherja.
Jóhannes sagði í Kveik að hann hefði ekki hafa gert neitt í Namibíu nema án aðkomu Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja. Þar kallaði hann starfsemi Samherja í Namibíu „skipulagða glæpastarfsemi“ þar sem fyrirtækið græði á auðlindum landsins en hafi svo fært alla peninganna sem það græddi út úr því til að fjárfesta annars staðar í heiminum.