Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að henni hafi, líkt og öllum, verið verulega brugðið við fréttaflutning Kveiks og Stundarinnar af Samherja. Hún segir að eðlilega verði þetta stórmál rannsakað og að gefa verði þartilgerðum aðilum gott svigrúm til þess. Hún sé hins vegar á sama tíma þeirrar skoðunar að ekki megi leyfa „öldunum að lægja“ án þess að nokkur breyting eigi sér stað. Þetta kemur fram í stöðufærslu Þorgerðar Katrínar á Facebook.
Grímulaus sérhagsmunagæsla ríkisstjórnarflokkanna
Þorgerður Katrín segir að þingmenn verði að spyrja sig hvað þeir geti gert til gera leikreglurnar gegnsærri og skýrari í þágu almannahagsmuna, ekki sérhagsmuna.
„Við höfum upplifað grímulausa sérhagsmunagæslu ríkisstjórnarflokkanna á þessu kjörtímabili,“ segir Þorgerður Katrín og bætir því við að það sé engin tilviljun að ríkisstjórnin hafi beitt sér fyrir milljarða lækkun á veiðigjaldi.
Hún segir jafnframt að drög að stjórnarskrárákvæði um auðlindir sem forsætisráðherra hafi sett fram í samráðsgátt séu ákveðin vonbrigði. „Ég óttast að verði þetta ákvæði að veruleika, eins og það er sett fram í dag af hálfu ríkisstjórnarinnar og ef tímabundnir samningar verði ekki innleiddir samhliða að niðurstaðan verði sú að kvótinn verði til varanlegrar nýtingar og að endingu alfarið í eigu útgerðarmanna. Í boði ríkisstjórnarinnar,“ segir Þorgerður Katrín.
90 prósent af styrkjum sjávarútvegsfyrirtækja til ríkisstjórnarflokkanna
Enn fremur veltir Þorgerður Katrín upp þeirri spurningu um hvort greiðslur lögaðila til stjórnmálaflokka eigi að vera heimilaðar yfirhöfuð. „Það teiknast að minnsta kosti upp ansi óþægileg mynd þegar veruleikinn er sá að 90% af styrkjum sjávarútvegsfyrirtækja til stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi í dag runnu til ríkisstjórnarflokkanna þriggja á síðasta ári,“ segir Þorgerður Katrín.
Eins og öllum er mér verulega brugðið við fréttaflutning Kveiks og Stundarinnar af Samherja. Eðlilega verður þetta...
Posted by Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir on Wednesday, November 13, 2019