Þáttur norska bankans DNB, sem er í hluta til í eigu norska ríkisins, í bankaviðskiptum Samherja í Namibíu er til rannsóknar innan bankans. Efnahagsbrotadeild norsku lögreglunnar, Økokrim, er jafnframt kunnugt um málið en getur ekki tjáð sig frekar um málið að svo stöddu. Þetta kemur fram í frétt norska dagblaðsins Dagens Næringsliv (DN).
Fréttaskýringarþátturinn Kveikur og Stundin hafa greint frá því að Samherji hafi komist hjá því að greiða skatta í Namibíu af þeim hagnaði sem skapaðist af makrílveiðum fyrirtækisins þar, meðal annars með því að færa hagnaðinn til landa þar sem skattar voru litlir eða engir, meðal annars á Kýpur, með viðkomu á eyjunni Máritíus. Allir peningar Samherja voru hins vegar sagðir enda í Noregi, inni á reikningum í DNB.
Í umfjöllun Stundarinnar um málið segir að DNB hafi látið loka bankareikningum félagsins Cape Cod FS í skattaskjólinu Marshall-eyjum í fyrra. Samkvæmt Stundinni fóru 9,1 milljarður í gegn án þess að DNB vissi nokkurn tímann hver ætti fyrirtækið.
DNB segir í svari við fyrirspurn DN að bankanum hafi verð greint frá umfjöllun Stundarinnar og Kveiks og að innan bankans verði ásakanirnar að sjálfsögðu rannsakaðar. Bankinn segist jafnframt hafa lagt mikla áherslu á að koma í veg fyrir peningaþvætti og aðra ólöglega fjármálastarfsemi undanfarin ár. Árlega sendi bankinn norsku lögreglunni yfir þúsund ábendingar um grunsamlegar millifærslur.
„Það er á ábyrgð lögreglu að rannsaka og þá uppgötva hvort viðskipti, sem hafa átt sér stað í gegnum bankann, feli í sér lögbrot. DNB getur því miður ekki gefið upplýsingar um einstaka viðskiptavini,“ segir í svarinu.
Trude Stanghelle talsmaður Økokrim, segir í samtali við DN að deildinni sé kunnugt um Samherjamálið en getur ekki tjáð sig um hvenær deildinni var kunnugt um málið. Jafnframt segir hún að deildin geti ekki gefið upplýsingar um hvort að þau hafi móttekið viðvaranir frá DNB um félagið eða ekki.
DNB hefur jafnframt gert atvinnu- og sjávarútvegsráðuneyti Noregs viðvart um að fjallað sé um þátt DNB í Samherjamálinu í íslenskum fjölmiðlum.