Blaðamenn, ljósmyndarar og myndatökumenn á stærstu vefmiðlum landsins, Vísi, Mbl, Fréttablaðsins og RÚV, hafa lagt niður störf en þetta er önnur vinnustöðvunin af fjórum í verkfallsaðgerðum sem Blaðamannafélag Íslands hefur boðað.
Samninganefndir blaðamanna og Samtaka atvinnulífsins náðu ekki samningum eftir sex klukkustunda fund í gærkvöld. Deiluaðilar sögðu að fundurinn hjá sáttasemjara hefði verið góður en enn væri of langt á milli til að ná sáttum. Gert er ráð fyrir öðrum fundi í næstu viku.
Kjarninn, Birtingur og Stundin hafa þegar samþykkt að ganga að kröfum Blaðamannafélagsins en það á ekki við um stærstu fyrirtækin, Sýn, Torg útgáfufélag Fréttablaðsins, og Árvakur, og RÚV. Verkfallið nær enn fremur ekki til félaga í Félagi fréttamanna á RÚV eða félaga í Rafiðnaðarsambandinu á Sýn.
Verktakar, utanfélagsfólk, fólk í öðrum stéttarfélögum skuli ekki vinna
Á Facebook-síðu Blaðamannafélagsins kemur fram að verkfallið muni standa á milli klukkan 10:00 og 18:00 í dag.
Framkvæmd verkfallsins er, samkvæmt Blaðamannfélaginu, að ekkert skuli fara inn á vefina þessa átta klukkutíma og ljósmyndarar og tökumenn skuli jafnframt ekki fara í tökur.
„Verktakar vinna ekki, utanfélagsfólk vinnur ekki, fólk í öðrum stéttarfélögum vinnur ekki,“ segir á Facebook-síðu BÍ.
Verkfallsdagur á morgun! Nú stendur verkfallið á milli klukkan 10 og 18 og framkvæmd verkfallsins er svona: Stutta...
Posted by Blaðamannafélag Íslands on Thursday, November 14, 2019
Stefna Árvakri
Athygli vakti að á vef mbl.is birtust þónokkrar fréttir þegar verkfallið stóð yfir í síðustu viku. Vísir og Fréttablaðið birtu ekki fréttir á meðan verkfalli stóð en það gerði RÚV aftur á móti. Í frétt RÚV um verkfallið kom fram að áhrif á starfsemi ruv.is væru takmörkuð þar sem stærstur hluti fréttamanna á fréttastofu RÚV væri í Félagi fréttamanna en ekki Blaðamannafélaginu.
Blaðamannafélag Íslands hefur stefnt Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins fyrir félagsdóm vegna meintra verkfallsbrota sem framin voru síðastliðinn föstudag þegar verkfallsaðgerðir stóðu yfir.
Í frétt BÍ um málið kemur fram að alls sé um að ræða bort í yfir 20 liðum sem framin hafi verið af níu einstaklingum. Í stefnunni er þess krafist að viðurkennt sé með dómi að Árvakur hafi brotið gegn lögum um stéttafélög og vinnudeilur og verði dæmt til greiðslu sektar í ríkissjóðs og greiðslu málskostnaðar. Málið verður þingfest næstkomandi þriðjudag.