„Í krafti stöðu minnar sem formaður stjórnar Útvegsmannafélags Norðurlands beini ég þeirri spurningu til þín hvort slíkur pólitískur áróður samræmist siðareglum Columbia-háskóla.“ Þetta er meðal þess sem kom fram í bréfi sem Kristján Vilhelmsson, stærsti eigandi og útgerðarstjóri Samherja, sendi til bandaríska háskólans Columbia vegna skrifa Jóns Steinssonar, sem hagfræðings sem starfaði við skólann. Skrif Jóns höfðu verið um íslenskan sjávarútveg og aðrar fjárfestingar eigenda sjávarútvegsfyrirtækja, höfðu birst á íslenskum miðlum einvörðungu og hann notaði ekki nafn Columbia-háskóla vegna þeirra. Bréfasendingin hafði engin áhrif á stöðu Jóns innan háskólans.
Þetta kemur fram í bókinni „Ekkert að fela – Á slóð Samherja í Afríku“, eftir Helga Seljan, Aðalstein Kjartansson og Stéfán Aðalstein Drengsson, þar sem fjallað er ítarlega um sögu og umsvif sjávarútvegsrisans Samherja, sem var nýverið afhjúpaður í Kveiksþætti sama teymis. Þar kom fram að Samherji hefði greitt ráðamönnum í Namibíu 1,4 milljarð króna í ætlaðar mútugreiðslur fyrir aðgengi að ódýrum kvóta, að grunur væri uppi um stórfellda skattasniðgöngu fyrirtækisins og um að það hefði stundað peningaþvætti.
Tilraun til að hefta þátttöku fræðimanna í umræðu
Í maí 2014 greindi Kjarninn frá könnun sem sýndi að sjötti hver háskólamaður á Íslandi hafði komið sér hjá því að tjá sig við fjölmiðla vegna ótta við viðbrögð valdafólks úr stjórnmála- og efnahagslífi. Þar kom einnig í ljós að meirihluti háskólamanna taldi að akademísku frelsi fræði- og vísindamanna á Íslandi stafi ógn af gagnrýni eða hótunum frá valdafólki í stjórnmálum, efnahags- og atvinnulífi.
Skömmu síðar birti Kjarninn umfjöllun eftir Björn Gíslason þar sem sagt var frá því hvernig Jón Steinsson, þá dósent í hagfræði við Columbia-háskólann í New York sem flutti sig yfir til Berkeley-háskólans í fyrra, hefði fengið að finna fyrir því að skrifa reglulega um hitamál samfélagsins í íslenska fjölmiðla, sérstaklega um fiskveiðistjórnunarkerfið, auðlindanýtingu og skattamál.
Jón hóf að skrifa í blöð árið 1997 þegar hann var hagfræðinemi við Princeton-háskóla í Bandaríkjunum. Meðan á námi hans í Princeton- og síðar Harvard-háskóla stóð lét hann reglulega í sér heyra, bæði á síðum Morgunblaðsins og á vefritinu Deiglunni. „Ég held að ég sé búinn að skrifa í kringum 300 greinar allt í allt. Ég skrifaði alltaf nokkrar greinar á ári í Moggann en um það leyti sem Davíð tók við Mogganum þá byrjaði ég að skrifa í Fréttablaðið. Svo fór ég að skrifa á Pressuna og færði mig þaðan yfir á Eyjuna.“
Kvartað til yfirmanns hagfræðideildar Columbia-háskóla
Jón var nokkuð atkvæðamikill í umræðunni eftir bankahrun en um það leyti var hann að hefja störf við Columbia-háskóla. Hann var óhræddur að taka þátt í umræðum um hitamál samfélagsins. „Það er augljóst mál að það skiptir alveg rosalega miklu máli að ég er í útlöndum, að ég er í vinnu sem enginn getur rekið mig úr og ég er ekki upp á neinn kominn á Íslandi. Og ef ég segi eitthvað þá þýðir það ekki að einhverjir styrkir komi ekki hingað eða þangað.“
Hann sagðist hafa upplifað það, sérstaklega í tengslum við umræður um kosti og galla fiskveiðistjórnunarkerfisins, að margir þorðu ekki að tjá sig. „Stundum segir fólk við mig að ástæðan sé sú að það sé hrætt við viðbrögðin sem það muni fá.“
Sjálfur sagðist Jón hafa fengið bæði símtöl og tölvupósta frá valdamiklum aðilum í kjölfar gagnrýninna blaðaskrifa eða ummæla í fjölmiðlum. Tvö mál hafi kallað fram sérstaklega sterk viðbrögð, gagnrýni annars vegar á kvótakerfið og hins vegar á Sjálfstæðisflokkinn og þá sérstaklega Davíð Oddsson.
Jón nefndi tvö dæmi. „Mér var einu sinni sagt að ég væri búinn að brenna allar brýr að baki mér og ég gæti aldrei fengið vinnu á Íslandi.“
Hitt dæmið hafi snúið að áhrifamanni í íslensku atvinnulífi sem hafi nokkrum árum áður sent deildarforseta Columbia-háskóla bréf þar sem hann gerði athugasemdir við skrif Jóns í íslenska miðla.
Umrædd skrif voru skoðanapistill sem birtist á Pressunni 10. maí 2011 þar sem Jón gagnrýndi orð útvegsmanna um að sérstakt auðlindagjald væri í raun landsbyggðarskattur. „Í dag fá eigendur útgerðarfyrirtækja einkaafnotarétt af auðlindum sjávar nánast án endurgjalds,“ sagði í greininni eftir Jón. „Allur auðlindaarðurinn í sjávarútvegi rennur því til eigenda útgerðarfyrirtækja. Um þessar mundir er auðlindaarðurinn líklega í kringum 45 ma. kr. á ári. Stærstur hluti þessa fjár fer í lúxuslíf og gæluverkefni útgerðarmanna, svo sem kampavín og kavíar í útlöndum, þyrlur og bílaumboð og það að dekka taprekstur Morgunblaðsins. En vitaskuld eru einstaka brauðmolar sem detta fyrir fæturna á venjulegu fólki á landsbyggðinni. Útgerðarmenn styrkja til dæmis íþróttafélög víða á landsbyggðinni.“
Jón vildi ekki greina frá því hver þessi maður væri við Kjarnann árið 2014 en sagði deildarforsetann hafa sagt að augljóslega myndi hann ekki gera neitt í málinu enda nyti Jón frelsis sem háskólamaður til þátttöku í opinberri umræðu. „Ef þessir menn reyna að hafa áhrif á yfirmann hagfræðideildar í Columbia, sem þeir hafa augljóslega engin tök á, þá getur maður bara ímyndað sér hvernig það er þegar einhver í háskólum á Íslandi skrifar eitthvað svona.“
Jón sagðist ekki hafa upplifað viðlíka hótanir eða gagnrýni eftir að hafa tjáð sig um önnur mál.
Opinberað í nýrri bók
Í bókinni „Ekkert að fela – Á slóð Samherja í Afríku“, eftir Helga Seljan, Aðalstein Kjartansson og Stéfán Aðalstein Drengsson, er greint frá því hver áhrifamaðurinn er í fyrsta sinn opinberlega. Um var að ræða Kristján Vilhelmsson, stærsta eiganda Samherja og útgerðarstjóra fyrirtækisins.
Þar segir að í bréfinu sem Kristján sendi hafi hann kynnt sig sem formann Útvegsmannafélags Norðurlands og rakið þátttöku Jóns í þjóðmálaumræðu, einkum í tengslum við hrun íslenska bankakerfisins þremur árum fyrr. „Sumt af því sem hann hefur fjallað um þar hefur hann gert af hlutleysi og fagmennsku. Sumt annað hins vegar, hefur hann gert þannig að það skaðar orðspor hans og Columbia-háskóla,“ sagði í bréfi Kristjáns, sem óskaði svara við því hvaða rannsóknir Columbia-háskóli hefði gert á íslenska kvótakerfinu. Og hann vitnaði orðrétt í ummæli Jóns um Morgunblaðsviðskiptin, þyrlukaup og lúxuslíf og sagði þau alröng. „Í krafti stöðu minnar sem formaður stjórnar Útvegsmannafélags Norðurlands beini ég þeirri spurningu til þín hvort slíkur pólitískur áróður samræmist siðareglum Columbia-háskóla.“ í bréfinu sagði enn fremur að Jón hefði „ítrekað notað sér titil sinn og nafn háskólans í íslenskum fjölmiðlum undanfarin tvö og hálft ár“. Bréf Kristjáns Vilhelmssonar vakti, samkvæmt bókinni, nokkra furðu meðal yfirmanna og kollega Jóns við Columbia-háskóla og hafði engar afleiðingar fyrir Jón. „Þar á bæ töldu menn að ekki bæri að skerða akademískt frelsi Jóns fremur en almennt tjáningarfrelsi hans, þrátt fyrir gagnrýna skoðun hans á viðskiptum íslenskra kvótaeigenda.“