Bankareikningar í eigu Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, og Tamson Hatukulipi, kallaður Fitty, hafa verið frystir í tengslum við rannsókn á ætlaðri mútuþægni þeirra. Fitty er tengdasonur Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu.
Þetta kemur fram í prentútgáfu The Namibian sem kemur út á morgun en hægt er að lesa á netsíðu miðilsins.
Þar segir einnig að mennirnir tveir hafi farið til Cape Town í Suður-Afríku nýverið og hafi enn ekki snúið aftur til Namibíu.
Í Kveik kom fram að greiðslur Samherja til hópsins hefðu numið að minnsta kosti 1,4 milljörðum króna.
Bæði Shanghala og Esau sögðu af sér ráðherraembætti á miðvikudag, innan við sólarhring eftir að Kveiksþátturinn var sýndur. James Hatukulipi hefur auk þess þurft að segja af sér sem forstjóri fjárfestingafélags og Þorsteinn Már Baldvinsson hefur stigið tímabundið til hliðar sem forstjóri Samherja.
Málið er nú til rannsóknar í þremur löndum: Namibíu, Íslandi og í Noregi. Grunur er um að auk mútugreiðslna hafi Samherji stundað umfangsmikla skattasniðgöngu og peningaþvætti.