James Hatuikulipi, einn þeirra fjögurra áhrifamanna í Namibíu sem liggja undir grun að hafa þegið mútur frá Samherja, hefur sagt af sér sem stjórnarformaður í ríkisfyrirtækinu Namibian Fishing Corporation (Fishcor). Hatuikulipi er frændi Tamson Hatuikulipi, tengdasonar Bernhard Esau, nú fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu. Esau sagði af sér embætti ásamt Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra, daginn eftir að Kveikur og Stundin opinberuðu viðskiptahætti Samherja í landinu og það að áðurnenfndir fjórir menn hafi þegið mútur upp á að minnsta kosti 1,4 milljarða króna fyrir að tryggja Samherja aðgengi að ódýrum kvóta.
Namibian Sun greinir frá því að James Hatuikulipi hafi sagt af sér sem stjórnarformaður. Mikill þrýstingur hafði verið á hann síðastliðna viku að gera slíkt, en hann sagði starfi sínu lausu hjá fjárfestingafélaginu Investec í síðustu viku. Þar með eru allir þeir þrír menn sem gegndu valdamiklum störfum á vegum hins opinbera í Namibíu, og liggja undir grun um að hafa þegið stórfelldar mútugreiðslur, búnir að segja sig frá störfum sínum.
Þorsteinn Már líka búinn að víkja tímabundið
Í sérstökum tvöföldum Kveiksþætti sem sýndur var á RÚV fyrir átta dögum kom fram að vísbendingar væru um að þarna væri um mútugreiðslur að ræða til að komast yfir kvóta í landinu á sem ódýrastan hátt. Umfjöllunin var unnin í samstarfi Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks.
Þar sagði einnig að starfshættir Samherja í Namibíu, og þeirra sem fyrirtækið á að hafa greitt mútur til, hefðu verið til rannsóknar hjá þremur eftirlitsstofnunum í landinu, meðal annars spillingarlögreglunni þar. Auk þess eru yfirvöld á Íslandi og í Noregi meðvituð um málið.
Umfjöllunin er byggð á þúsundum skjala og tölvupóstsamskipta starfsmanna Samherja þar sem starfsemi fyrirtækisins, eins þess stærsta á Íslandi, í Namibíu síðastliðinn tæpan áratug er til umræðu. Gögnunum var lekið til Wikileaks og Kveikur hefur, ásamt Stundinni, unnið ítarlega umfjöllun úr þeim.
Auk þess var í Kveik birt viðtal við Jóhannes Stefánsson, sem var verkefnastjóri Samherja í Namibíu fram á árið 2016, þar sem hann viðurkenndi að hafa brotið lög fyrir hönd Samherja þegar fyrirtækið náði í umtalsverðan kvóta í landinu. Þar kom einnig fram að Jóhannes hefði gefið sig fram við yfirvöld í Namibíu, hefði fengið lagalega stöðu uppljóstrara og aðstoðaði nú við rannsókn þeirra á starfsháttum Samherja.
Jóhannes sagði í Kveik að hann hefði ekki hafa gert neitt í Namibíu nema án aðkomu Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja. Þar kallaði hann starfsemi Samherja í Namibíu „skipulagða glæpastarfsemi“ þar sem fyrirtækið græði á auðlindum landsins en hafi svo fært alla peninganna sem það græddi út úr því til að fjárfesta annars staðar í heiminum.
Eftirmálar opinberunarinnar hafa meðal annars verið þeir að Þorsteinn Már hefur vikið tímabundið sem forstjóri Samherja og stjórnarformaður Framherja í Færeyjum og Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.